Þar að auki fær KSÍ um 206 milljónir fyrir að liðið komst upp úr riðlinum og í sextán liða úrslit með sigrinum á Austurríkismönnum á miðvikudag. Ekki má gleyma því að KSÍ hafði einnig tryggt sér ríflega milljarð króna með þátttöku landsliðsins á mótinu.
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, segir veltu KSÍ tvöfaldast á þessu ári út af mótinu. „Fyrirkomulag UEFA er í stuttu máli þannig að við fáum átta milljónir evra fyrir þátttökuna en við berum allan kostnaðinn sjálfir við hana. Allt sem við gerum hér í Frakklandi er greitt af sambandinu og sá kostnaður er gríðarlegur.“

Geir segir að sú ákvörðun hafi verið tekin áður en út var haldið að 300 milljónir króna rynnu til aðildarfélaga KSÍ. „Ráðgert var að megnið af okkar tekjum af mótinu færi til aðildarfélaganna. Nú erum við hins vegar að fá viðbótartekjur og þeim hefur ekki verið ráðstafað að öðru leyti,“ segir Geir og bætir við að því lengra sem landsliðið fari á mótinu, því meiri verði kostnaðurinn sem KSÍ ber.
Að sögn Geirs er KSÍ einnig með afrekskerfi fyrir leikmenn liðsins og þjálfara svo hluti af tekjunum mun fara í það. Hann segir bónusgreiðslur til leikmanna vera trúnaðarmál.
„Það er samkomulag á milli KSÍ og leikmannanna,“ segir Geir. Samkvæmt heimildum fréttastofu fengu leikmenn sem dæmi í kringum tvær milljónir króna fyrir hvort jafntefli í riðlakeppninni og fjórar milljónir fyrir sigurinn á Austurríki. Hver leikmaður hefur því fengið í kringum átta milljónir króna í sinn hlut.
„Ef við náum svo langt að vinna þessa keppni þá hefur það verulega jákvæð áhrif á fjárhag Knattspyrnusambandsins,“ segir Geir glettinn.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. júní