Eftir að Donald Trump skipaði Scott Pruitt, fyrrverandi dómsmálaráðherra Oklahoma-ríkis sem stefndi EPA margoft, sem forstjóra EPA hefur stofnunin meðal annars fjarlægt upplýsingar um loftslagsbreytingar af vefsíðu sinni og byrjað að vinda ofan af umhverfisreglugerðum.
Þá hefur Pruitt ákveðið að endurnýja ekki samninga við tugi sérfræðinga sem hafa setið í vísindaráði EPA, þvert á viðteknar venjur hjá stofnuninni. Vísindamenn hafa gagnrýnt þá ráðstöfun og sakað ríkisstjórn Trump um að reyna að draga úr vægi vísinda í mótum umhverfisstefnu. Óttast þeir að ætlun Pruitt sé að gefa fulltrúum iðnaðar og annarra hagsmunaaðila meira vægi í starfi EPA.
Þrumu lostin yfir fyrirmælunum
Deborah Swackhamer er umhverfisefnafræðingur sem hefur verið formaður vísindaráðsins. New York Times segir að áður en hún bar vitni fyrir vísindanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings 23. maí hafi Ryan Jackson, starfsmannastjóri Pruitt, beðið hana um að halda sig við áherslupunkta stjórnenda EPA um brotthvarf vísindaráðgjafanna.
„Ég var sem þrumu lostin að hann væri að þrýsta á mig um að „leiðrétta“ eitthvað í framburði mínum. Ég hélt mig við staðreyndirnar en hann gerði það ekki. Mér fannst ég vera beitt aflsmunum,“ segir Swackhamer en hún hafði þegar lagt fram skriflegan framburð við nefndina þegar Jackson gaf henni fyrirmælin.

Pruitt hefur meðal annars sagt opinberlega að hann trúi ekki samhljóða áliti vísindamanna að koltvísýringur sem menn losa sé aðalorsök hnattrænnar hlýnunar. Hann hefur jafnframt raðað fyrrverandi starfsmönnum James Inhofe, þingmanns repúblikana og þekkts loftslagsvísindaafneitara, í störf hjá EPA, þar á meðal starfsmannastjóranum.
Á meðal þess sem Jackson sagði Swackhamer að segja í framburði sínum var að ákvörðun hefði enn ekki verið tekin um að láta vísindaráðgjafana fara. New York Times segir að á þeim tíma hafi fjöldi ráðgjafa þegar fengið tilkynningu um að samningar þeirra yrðu ekki endurnýjaðir.
„Vísindaráðið var með 68 meðlimi fyrir tveimur mánuðum. Þeir verða ellefu 1. september. Þeir eru í raun að hætta vísindalegu starfi með því að binda enda á störf þessara ráðgjafa. Það eru engir fundir á dagskránni hjá okkur, engin ráð til að fara í gegnum vinnuna,“ segir Swackhamer við dagblaðið.
Í drögum að fjárlögum sem Trump lagði fram fyrr á þessu ári lagði forsetinn til mikinn niðurskurð hjá ríkisstofnunum en þó hvergi meiri en hjá Umhverfisstofnuninni. Trump hefur meðal annars dregið Bandaríkin út úr Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál og kallað loftslagsbreytingar kínverskt „gabb“.