Enski boltinn

Manchester United menn í miklu stuði í sigri á Leeds

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mason Greenwood fagnar hér markinu sem hann skoraði eftir aðeins sex mínútna leik.
Mason Greenwood fagnar hér markinu sem hann skoraði eftir aðeins sex mínútna leik. Getty/Paul Kane
Manchester United byrjar undirbúningstímabilið vel undir stjórn Ole Gunnars Solskjær en í dag vann liðið sannfærandi 4-0 sigur á Leeds United.

Mason Greenwood, Marcus Rashford, Phil Jones og Anthony Martial skoruðu mörk Manchester United liðsins í leiknum. Marcus Rashford var valinn maður leiksins.

Leikurinn fór fram í Perth í Ástralíu alveg eins og fyrsti leikur United-liðsins á undirbúningstímabilinu þar sem liðið vann 2-0 sigur á Perth Glory á laugardaginn var. 55.274 mættu til að sjá Manchester United spila.

Hinn sautján ára gamli Mason Greenwood var í byrjunarliði Manchester United og kom liðinu í 1-0 strax á sjött mínútu eftir undirbúning Paul Pogba og stoðsendingu frá nýja manninum Aaron Wan-Bissaka.



 

Marcus Rashford kom United síðan í 2-0 á 27. mínútu. Rashford slapp í gegn eftir útspark frá Sergio Romero og kláraði færið vel. Sergio Romero hafði rétt áður varið vel frá sóknarmanni Leeds.

Phil Jones kom United í 3-0 á 51. mínútu. Hann skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu frá Andreas Pereira.

Anthony Martial skoraði fjórða markið út vítaspyrnu á 69. mínútu. Hinn nítján ára gamli Tahith Chong fiskaði vítið.

Næst á dagskrá hjá Manchester United er International Champions Cup þar sem leikir liðsins verða sýndir á Stöð 2 Sport. Liðið mætir fyrst Internazionale 20. júlí í Singapúr (klukkan 11:25 á Stöð 2 Sport) og spilar svo við Tottenham Hotspur í Sjanghæ 25. júlí.

Lokaleikurinn er síðan á móti AC Milan í Cardiff 3. ágúst en í millitíðinni (30. júlí) spilar United liðið æfingaleik við Kristiansund í Noregi.



Hér fyrir neðan má sjá byrjunarliðin í fyrri hálfleik og seinni hálfleik.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×