Loðnuleit hefst í næstu viku eftir að samkomulag náðist í gærkvöldi um að ríkið greiði helming leitarkostnaðar útgerðarfyrirtækja, sem leggja fram tvö til þrjú skip í leitina á móti einu skipi Hafrannsóknastofnunar. Fjallað var um verkefnið í fréttum Stöðvar 2.
Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi fyrir þau samfélög sem mest treysta á loðnuveiðar, enda er áætlað að loðnuvertíð geti skilað fimmtán til tuttugu milljarða króna útflutningsverðmæti. Þetta eru tekjur sem einkum lenda í þeim byggðum sem vinna loðnuna; með heilfrystingu, hrognavinnslu og loðnubræðslu.

Þar vega Vestmannaeyjar þyngst ásamt Austfjarðabyggðum. Bæir eins og Hornafjörður, Fáskrúðsfjörður, Norðfjörður, Eskifjörður, Seyðisfjörður, Vopnafjörður og Þórshöfn eiga allir mikið undir því að loðna finnist.
Tap þjóðarbúsins vegna missis loðnuvertíðar í fyrra reiknaðist 0,6 prósent af landsframleiðslu. Svo víðtæk eru áhrif loðnunnar að fækkun farþega í innanlandsflugi í fyrravetur var meðal annars skýrð með því að loðnuveiðar hafi brugðist.

En núna hefur náðst samkomulag milli Hafrannsóknastofnunar og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um að hefja skipulega leit að loðnu og er stefnt að því að hún hefjist á mánudag, ef veður leyfir.
Rannsóknarskipið Árni Friðriksson fer fyrir leitinni og munu útgerðir uppsjávarskipa leggja til tvö til þrjú skip. Jens Garðar Helgason, formaður SFS, áætlar að ríkið greiði um helming leitarkostnaðar útgerðanna.

Jens Garðar segir það skipta mjög miklu máli að hefja leitina en kveðst þó ekki vilja gera sér of miklar vonir um árangur.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2.