Spyrja megi hvort slíkt fyrirkomulag sé eðlilegt út frá hlutverki nefndarinnar og hvernig nefndin sinni hlutverki sínu um eftirlit með framkvæmdavaldinu þegar sami flokkur fari með ráðuneytið og allt dagskrárvald nefndarinnar.
Þetta segir Kristján Guy í aðsendri grein sem birtist á Vísi í morgun þar sem hann segir nauðsynlegt að utanríkismál fái aukna umræðu og umfjöllun á þinginu.
Hlutverk og verkefni verði tekin til gagngerrar endurskoðunar
Kristján Guy, sem var aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar þegar hann gegndi embætti utanríkisráðherra á árunum 2009 til 2013, segir þörf á því að taka bæði hlutverk og verkefni utanríkismálanefndar þingsins til gagngerrar endurskoðunar.

Við breytingar á þingsköpum fyrir tæpum áratug hafi orðið breytingar á hlutverki og starfi nefndarinnar sem áður hafði notið meiri sérstöðu í störfum þingsins. Áður gátu einungis þeir sem kosnir væru til setu í nefndinni setið fundi hennar og ríkari trúnaður lagður á þá.
Hann segir sérstöðu nefndarinnar þó enn vera töluverða, en nefndin skal vera ríkisstjórn til ráðuneytis um meiriháttar utanríkismál, enda skuli ríkisstjórnin ávallt bera undir nefndina slík mál, jafnt á þingtíma sem í þinghléum.
Óskrifuð regla um valdajafnvægi brotin
Kristján Guy segir að kjörtímabilinu hafi verið óskrifuð regla á þinginu um valdajafnvægi. Þegar kemur að utanríkismálum hafi reglan hins vegar verið brotin þar sem sami flokkur hafi farið bæði með utanríkisráðuneytið og formennsku í utanríkismálanefnd.

Sjálfstæðismaðurinn Guðlaugur Þór Þórðarson fer nú með embætti utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og fer samflokkskona hans, Sigríður Á. Andersen, með formennsku í utanríkismálanefnd.
„Það gerðist síðast fyrir 15 árum og þá átti sami flokkur í hlut og nú. En nú er meira að segja einnig fyrsti varaformaður nefndarinnar einnig úr Sjálfstæðisflokknum [Njáll Trausti Friðbertsson]. Spyrja má hvort það fyrirkomulag sé eðlilegt út frá hlutverki nefndarinnar. Hvernig nefndin sinnir hlutverki sínu um eftirlit með framkvæmdavaldinu þegar sami flokkur fer með ráðuneytið og allt dagskrárvald nefndarinnar þarfnast umræðu á vettvangi þingsins,“ segir Kristján Guy.