Fótbolti

Xabi Alon­so ekki til Þýska­lands eftir allt saman

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Xabi Alonso verður áfram þjálfari B-liðs Real Sociedad þó svo allt hafi bent til þess að hann væri á leiðinni til Þýskalands.
Xabi Alonso verður áfram þjálfari B-liðs Real Sociedad þó svo allt hafi bent til þess að hann væri á leiðinni til Þýskalands. EPA-EFE/Javier Etxezarreta

Fyrir fjórum dögum var greint frá því að Xabi Alonso yrði nýr þjálfari Borussia Mönchengladbach í þýsku úrvalsdeildinni. Svo er aldeilis ekki en í dag skrifaði hann undir nýjan samning hjá Real Sociedad og mun halda áfram að þjálfa B-lið félagsins.

Hinn 39 ára gamli Xabi Alonso gerði garðinn frægan með Real Madrid, Bayern Munchen og spænska landsliðinu hér á árum áður. Hann var fljótur að færa sig yfir í þjálfun eftir að skórnir fóru upp í hillu og virtist samkvæmt flestum miðlum að hann myndi fá stóra tækifærið næsta sumar.

Marco Rose, þjálfari Gladbach, mun taka við Borussia Dortmund er þessu tímabili lýkur og var talið nær öruggt að Xabi mynda fylla skarð hans hjá Gladbach. Annað hefur nú komið í ljós.

Real Sociedad staðfesti fyrr í dag að Alonso muni stýra B-liði félagsins áfram á næstu leiktíð en sem stendur er B-lið Sociedad á toppi síns riðils í spænsku C-deildinni og á góða möguleika á að komast upp í næstefstu deild.

Aðallið Sociedad er svo í 5. sæti La Liga, spænsku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×