Nýorkubílar eru þeir sem ganga að hluta eða heild fyrir endurnýjanlegum orkugjöfum. Það þýðir að bæði hreinir rafbílar og tengitvinnbílar, sem hægt er að hlaða en ganga aðallega fyrir jarðefnaeldsneyti, teljast hvorir tveggja nýorkubílar.
Í ályktun aðalfundar Náttúruverndarsamtakanna sem fór fram í vikunni er Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sökuð um að ýkja árangur ríkisstjórnarinnar í orkuskiptum í samgöngum og villa um fyrir neytendum. Vísa þau til blaðagreinar hennar í sumar þar sem hún sagði hlutfall nýskráðra nýorkubíla hafa verið 45% árið 2020 og að það hafi verið næsthæsta hlutfall slíkra bíla í heiminum á eftir Noregi.
Samtökin benda á að tengitvinnbílar séu oft eyðslufrekari en bílar sem ganga fyrir hefðbundnu jarðefnaeldsneyti. Rafhlaðan geri þá umtalsvert þyngri. Um leið og hún tæmist keyri bíllinn á bensíni.
Samkvæmt núverandi skilgreiningu stjórnvalda teljast 52% nýseldra bíla það sem af er þessu ári nýorkubílar. Hins vegar séu hreinir rafbílar aðeins 24% af heildinni en tengitvinnbílar 28%.
„Hið rétta er að 76% nýseldra bíla ganga fyrir mengandi eldsneyti, þar af 28% að hluta,“ segir í ályktun Náttúruverndarsamtakanna.
Hvetja þau stjórnvöld til þess að banna innflutning á nýjum bensín- og dísilbílum strax frá og með árinu 2025, þar á meðal tengitvinnbílum. Annars auki stór hluti bílaflotans losun gróðurhúsalofttegunda í stað þess að draga úr henni.