Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rannsóknareiningu í eldfjallafræði og náttúruvá við Háskóla Íslands. Virknin við norður og suðurenda gossprungunnar var í fullum gangi á hádegi.
Á þessum tíma var engin virkni sjáanleg um miðbik sprungunnar og kvikuflæði þar stöðvast. Það var svo um klukkan 13:33 sem það sást mjög dökkur mökkur rísa upp af miðhluta sprungunnar.
„Líklegasta skýringin á þessari atburðar rás er sú að þegar kvikuvirknin hætti á miðhluta sprungunar, þá stóðu óstöðugir gosrásar-veggirnir eftir óstuddir og það fór að hrynja úr þeim ofan í sprunguna, rykmylsnan sem slíkt hrun myndar hefur, með hjálp frá heitu loftinu, þá risið upp úr sprungunni og myndað dökka mökkinn sem reis upp um 13:33 í dag.“
Þetta hrun heldur áfram og stigmagnast, líkt og rykmökkurinn. Um tvöleytið hefur hrunið opnað fyrir grunnvatnsrennsli inn í sprunguna og gufan myndast þegar það vatn komst í tengsl við heita gosrásina. Þetta er afleiðing þess hversu hratt dregið hefur úr virkninni í gosinu.