Þetta er meðal þess sem fram kemur í tilkynningu frá samtökunum. Þar segir að samtökin skilji að sterkar tilfinningar séu í spilunum vegna Eurovision keppninnar í ár á meðan hræðilegt stríð geysi í Miðausturlöndum.
Þau skilji jafnframt að fólk vilji tjá skoðanir sínar á ástandinu og ræða það. Öll hafi orðið fyrir áhrifum af myndum og sögum af þjáningu fólks í Ísrael og á Gasa.
Hinsvegar hafi það vakið athygli stjórnar keppninnar að samfélagsmiðlaherferðum hafi óspart verið beitt gegn einstaka keppendum. Minnir EBU á að ákvarðanir um þátttöku, meðal annars þátttöku KAN sjónvarpsstöðvar Ísrael, sé í höndum EBU en ekki einstaka keppenda.
Keppendur taki þátt í Eurovision til að deila sinni tónlist, menningu og skilaboðum. EBU hafi áður útskýrt hvers vegna Ísrael sé ekki meinað að taka þátt í keppninni í ár ólíkt Rússlandi. Slíkt kalli á uppbyggilegar samræður sem EBU segist fagna.
Athygli hafi hinsvegar verið vakin á því að keppendur hafi orðið fyrir netníði, hatursorðræðu og áreitni. Það sé óásættanlegt og ósanngjarnt, þar sem keppendur hafi ekki átt neinn þátt í ákvörðuninni. Markmið EBU sé að tryggja að Eurovision keppnin sé örugg fyrir alla þátttakendur, starfsfólk og aðdáendur keppninnar.