Skoðun

Opið bréf til Einars Þor­steins­sonar og Hildar Björns­dóttur - Hafið þið enga sómakennd?

Linda Ósk Sigurðardóttir skrifar

Fyrir 9 árum gerðu opinberir starfmenn samning við ríkið og sveitarfélög um skerðingu lífeyrisréttinda gegn jöfnun launa á milli markaða. Á þessum tíma hefur lítið áunnist og oftar en ekki lítill áhugi verið á því af hendi viðsemjenda okkar að fara í þessa vegferð. Það er því ekki skrýtið að við kennarar gerum kröfu um að hægt sé að segja upp samningnum ef ekki verður staðið við hann á tímabilinu. Inga Rún Ólafsdóttir formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga segir í viðtali við Vísi í dag 22. febrúar 2025: „Það er fyrst og fremst þetta forsenduákvæði sem stendur í okkur“. Við kennarar erum tilbúin að vinna þetta verkefni og ef Samband íslenskra sveitarfélaga er til í að vinna verkefnið af heilindum þá þurfa þau ekki að hafa neinar áhyggjur. Það er verulega slæmt þegar starfsfólk treystir ekki atvinnurekendum sínum og þannig er nú komið fyrir okkur kennurum. Út um allt land eru kennarar að hugsa um næstu skref sín.

Einar Þorsteinsson - í október síðastliðinn boðaðir þú formenn kennarafélaganna í Reykjavík á fund þar sem þú baðst afsökunar á ummælum þínum um kennara á fundi Sambands íslenskra sveitafélaga. Þá sagði ég reyndar að við í leikskólanum værum löngu hætt að láta fólk segja fyrirgefðu, það þyrfti að sýna í verki að það iðraðist. Nú gefum við ykkur Hildi Björnsdóttur tækifæri til þess að koma fram af heilindum og gera grein fyrir atkvæði ykkar í atkvæðagreiðslunni síðastliðinn föstudag eða hafið þið enga sómakennd?

Höfundur er formaður 1. deildar Félags leikskólakennara í Reykjavík




Skoðun

Skoðun

Sam­úð

Jón Steinar Gunnlaugsson skrifar

Sjá meira


×