Viðskipti erlent

Tíma­móta­sam­komu­lag um að draga úr losun skipa­flotans

Kjartan Kjartansson skrifar
Skipafélög heimsins þurfa að byrja að draga úr losun sinni á gróðurhúsalofttegundum á næstu árum samkvæmt samkomulagi sem gert var á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar.
Skipafélög heimsins þurfa að byrja að draga úr losun sinni á gróðurhúsalofttegundum á næstu árum samkvæmt samkomulagi sem gert var á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Vísir/EPA

Stefnt er að kolefnishlutleysi skipaflota heimsins fyrir miðja öldina í samkomulagi sem aðildarríki Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar samþykktu í síðustu viku. Skip sem losa of mikið verða sektuð en þeim sem draga úr losun verður umbunað.

Samkomulagið er það fyrsta um að byrja að takmarka losun skipageirans á gróðurhúsalofttegundum sem valda loftslagsbreytingum á jörðinni. Lagt er upp með að draga úr losuninni um fimmtung fyrir árið 2030 og útrýma henni algerlega fyrir 2050.

Greiða þarf 380 dollara, jafnvirði tæpra 49.000 íslenskra króna, fyrir hvert tonn sem skip losa umfram heimildir frá 2028 samkvæmt samkomulaginu. Hundrað dollarar til viðbótar verða lagðir á hvert tonn umfram stífari losunartakmörk, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Á móti kemur að þau skip sem draga úr losun sinni þannig að hún verði undir strangari losunarmörkunum fá heimildir sem þau geta selt þeim sem losa umfram heimildir sínar.

Alls eiga sektirnar að afla um fjörutíu milljarða dollara frá árinu 2030 en hluti fjárins á að gera vistvænt eldsneyti ódýrara fyrir skipafélög.

Til að byrja með geta skipafélög dregið úr losun flotans með því að brenna fljótandi jarðgasi og lífeldsneyti. Til lengri tíma litið þurfa þau hins vegar að líta til annarra kosta eins og ammoníaks og metanóls.

Aðildarríkin eiga eftir að samþykkja samkomulagið endanlega á fundi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar í október. Nokkur ríki, þar á meðal Kína, Brasilía og Sádi-Arabía, settu sig upp á móti tillögu Kyrrahafsríkja um strangari kröfur til skipafélaga. Eyríkin eiga á hættu að þurrkast út vegna hækkandi yfirborðs sjávar af völdum hnattrænnar hlýnunar.

Bandaríkin, það ríki sem ber mesta ábyrgð á þeirri hnattrænu hlýnun sem á sér stað sem sögulega stærsti losandi gróðurhúsalofttegunda í heiminum, sagði sig frá viðræðunum í síðustu viku. Hvöttu þau önnur ríki til að gera slíkt það sama og hótuðu að refsa þeim sem legðu gjöld á bandarísk skip. Stjórn repúblikana í Bandaríkjunum hafnar vísindalegum staðreyndum um loftslagsbreytingar og orsakir þeirra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×