Innlent

Engar skýringar frá sak­sóknara, Ís­lands­met í um­ræðum og ó­væntur hvalur

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Sindri Sindrason les kvöldfréttir í kvöld.
Sindri Sindrason les kvöldfréttir í kvöld. vísir

Dósent í félags og afbrotafræði telur skýrt að fleiri hafi gerst brotlegir við lög í kynferðisbrotamáli gagnvart fatlaðri konu en sá sem hlaut dóm. Fjallað verður um málið í kvöldfréttum Sýnar, en dósentinn telur að ríkissaksóknari verði að skýra ákvörðun sína.

Við segjum einnig frá vafasömu Íslandsmeti sem féll nú síðdegis, þegar umræða um veiðigjöld á Alþingi varð sú lengsta frá því mælingar hófust. Rætt verður við methafa beggja megin stjórnarlínunnar í beinni útsendingu.

Þá segjum við frá uppbyggingu gagnaverafyrirtækis á Akureyri, sem er í stórsókn um þessar mundir. Fjárfesting í stækkun á gagnaveri við rætur Hlíðarfjalls hljóðar upp á sextán milljarða, og enn er stefnt að frekari aukningu umsvifa.

Þá kynnum við okkur ósýnilegar stöðumælasektir sem gert hafa ökumönnum lífið leitt, sjáum frá ráðhúsinu þar sem þjóðfánar Úkraínu og Palestínu voru skornir niður í dag og sjáum spakan hval sem dólaði í Norðfjarðarhöfn, bæjarbúum til mikillar ánægju.

Í sportpakkanum verður svo rætt við Elísabetu Gunnarsdóttur, sem upplifir drauminn á fyrsta stórmóti sínu sem þjálfari Belgíu, auk þess sem hitað verður upp fyrir leik Breiðabliks í forkeppni Meistaradeildar Evrópu, í steikjandi hita í Albaníu.

Þetta og fleira til í kvöldfréttum Sýnar klukkan hálf sjö, á samtengdum rásum Sýnar, Vísis og Bylgjunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×