Erlent

Sex látnir í skot­á­rás Palestínu­manna í Jerúsalem

Kjartan Kjartansson skrifar
Ísraelskir sjúkraliðar flytja lík eins fórnarlamba árásarinnar á börum í Jersúsalem.
Ísraelskir sjúkraliðar flytja lík eins fórnarlamba árásarinnar á börum í Jersúsalem. AP/Mahmoud Illean

Að minnsta kosti sex eru látnir eftir að tveir palestínskir byssumenn hófu skothríð á strætisvagnastoppistöð í norðanverðri Jerúsalem í morgun. Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á verknaðinum en Hamas-samtökin hafa lýst yfir velþóknun á honum.

Þau látnu eru sagðir þrír karlmenn á fertugsaldri auk karls og konur á sextugsaldri, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins. AP-fréttastofan segir tólf særða. Ísraelskur hermaður og vegfarandi eru sagðir hafa skotið á byssumennina og fellt þá.

Árásin átti sér stað við fjölfarin gatnamót við norðanverðan inngang Jerúsalem. Gatan liggur að landtökubyggðum gyðinga í Austur-Jerúsalem.

Lögreglan segir að byssumennirnir hafi skotið á fólk sem beið eftir strætisvagni en ísraelskir fjölmiðlar halda því fram að mennirnir hafi einnig farið um borð í strætisvagn og skotið á farþegar í honum.

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra, fór á vettvang um tveimur tímum eftir að árásin var gerð. Hann sagði Ísraela há stríð á nokkrum vígstöðvum, þar á meðal á Gasa, Vesturbakkanum og í Ísrael. Netanjahú átti að vera í dómsal þar sem spillingarmál á hendur honum er til meðferðar en því var frestað vegna árásarinnar.

Þá lofaði forsætisráðherrann sérstaklega hermanninn sem tók þátt í að stöðva byssumennina. Hann væri úr nýrri herdeild fyrir strangtrúaða gyðinga.

Hamas-samtökin gengust ekki beint við ábyrgð á árásinni en sögðu hana „náttúruleg viðbrögð við glæpum hernámsins gegn þjóð okkar“.

Árásin í dag er sú mannskæðasta í Ísrael frá því að tveir Palestínumenn drápu sjö og særðu fleiri í léttlest í Tel Aviv í október í fyrra. Hamas lýsti yfir ábyrgð á því fjöldamorði.

Fréttin hefur verið uppfærð, meðal annars með tölu látinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×