Sport

„Mér bara brást boga­listin“

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson brenndi af víti.
Fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson brenndi af víti. Vísir/Diego

Breiðablik gerði markalaust jafntefli við KuPS frá Finnlandi á Laugardalsvelli í kvöld. Breiðablik nældi sér þó í sitt fyrsta stig í Sambandsdeildinni eftir 3-0 tap gegn Lausenne í fyrsta leik.

Höskuldur Gunnlaugsson fékk besta færi leiksins en mistókst að koma boltanum í netið af vítapunktinum.

„Þetta var svekkjandi, mér bara brást bogalistin,“ sagði Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, svekktur eftir leikinn.

Blikar voru töluvert betri aðilinn í leiknum og fengu virkilega góð færi.

„Mér fannst frammistaðan þokkaleg. Nokkuð jafn leikur heilt yfir. Við hefðum þó getað farið ögn betur með góðar stöður sem við komumst í.“

„Við héldum markinu hreinu og það var vinnusemi og dugnaður í liðinu. Við vorum ágætlega hugrakkir á boltann, heilt yfir fínn leikur.“

Breiðablik tekur á móti Stjörnunni í lokaumferð Bestu deildar karla á sunnudaginn. Leikur um þriðja sæti deildarinnar og þar af leiðandi Evrópusæti í húfi.

„Stór leikur og mikið undir í næsta leik. Við þurfum að ná endurheimt hratt og vel. Við verðum að vera klárir á sunnudaginn, það er klárt. Það er stutt á milli stórra verkefna en það er bara tilhlökkun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×