Skoðun

„Við skulum syngja lítið lag...“

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar

Ákvörðun RÚV um að sniðganga Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva er bæði brött og djörf þegar allt er saman tekið. Og að sjálfsögðu hárrétt.

Manni finnst nánast kjánalegt að rifja sýknt og heilagt upp af hverju það sé algerlega óboðlegt að þjóð sem stundar fullsannað þjóðarmorð sé á sama tíma að taka þátt í söngvakeppnum og íþróttakeppnum eins og ekkert sé. Það er þá áhugavert að þeir þrír aðilar í útvarpsráði sem mótmæla ákvörðuninni tali um að "Eurovision er ekki vettvangur til að senda hvers konar pólitísk skilaboð á milli ríkja."

Þessi ákvörðun, og eitrun keppninnar í heild, er einmitt vegna þess að Ísrael sjálft er búið að breyta henni í pólitískan leiksopp til þess að hvítþvo sig af þeim hörmungaraðgerðum sem það stendur linnulaust að. Ef þú ert að syngja og dansa og íþróttast, þá ertu gúddí gæi. Er það ekki? Þetta er pólitíkin sem er verið að stunda, hana viljum við út og þess vegna þarf Ísrael - sem er að nýta keppnina í annarlegum tilgangi og pólítískum - að fara úr keppninni. Einungis þannig er hægt að koma henni á réttan kjöl á nýjan leik.

Þessi sorglega þróun, þetta niðurbrot á þessari annars stórskemmtilegu keppni, er á reikning Ísrael en þó fyrst og fremst á reikning yfirstjórnar Eurovision sem á að vera búin að víkja Ísrael úr keppninni fyrir löngu síðan.

Til hvers er SÞ, Amnesty, Rauði krossinn o.s.frv. þegar algild ákvæði og mannúðarsjónarmið gilda fyrir einn en ekki annan? Engin ein þjóð/ríkisstjórn hefur farið oftar á svig við alþjóðalög er kemur að stríðsrekstri en Ísrael og í skjóli Bandaríkjanna getur það gert það sem því sýnist.

Ég er að bíða eftir Domino-áhrifum og nú hefur Ísland lagt sín lóð á þær vogarskálar. Við erum að standa í lappirnar og standa með sjálfsögðum mannréttindum. Fólki er einfaldlega misboðið og megi sem flestar þjóðir feta í fótspor þeirra fimm sem sagt hafa sig úr keppni.

Höfundur er tónlistarfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×