Fótbolti

Ronaldo ætlar ekki að "deyja" í Bandaríkjunum, Katar eða Dúbæ

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. Vísir/Getty
Margir velta fyrir sér hvað Cristiano Ronaldo ætli að gera í framtíðinni og flesta stuðningsmenn Manchester United dreymir um að sjá kappann snúa aftur á Old Trafford.

Ronaldo er mikið spurður út í framtíð sína þessa dagana og hann hefur margoft tjáð ást sína á Manchester United þar sem hann breyttist úr lítt þekktum leikmanni í þann besta í heimi.

Manchester United seldi Cristiano Ronaldo til Real Madrid fyrir þá metfé sumarið 2009, 80 milljónir pund, og síðan hefur kappinn farið á kostum með Real Madrid liðinu.

„Ég er mikill stuðningsmaður Manchester United og hef sagt það mörgum sinnum. Mér líður samt mjög vel í Real Madrid núna og ég er ánægður," sagði Cristiano Ronaldo þar sem hann var gestur í spjallþætti Jonathan Ross á laugardagskvöldið. ESPN sagði frá.

„Það vita orðið allir að ég elska Manchester United en það veit samt enginn sína framtíð. Eins og staðan er núna þá er ég ánægður hjá Real Madrid," sagði Ronaldo.

Ronaldo hefur verið orðaður við United en einnig við franska liðið Paris Saint Germain og við lið í Bandaríkjunum og Miðausturlöndum. Ronaldo er hinsvegar harður á því að vilja klára ferilinn á toppnum.

„Mín hugsun er sú að hætta sem leikmaður í toppdeild. Ég vil klára ferilinn með fullri virðingu og hjá toppklúbbi. Það þýðir ekki að ég telji að það sé slæmt að spila í Bandaríkjunum, Katar eða Dúbæ. Ég bara ekki sjálfan mig fara þangað," sagði Ronaldo.

Cristiano Ronaldo gaf það einnig út að hann ætli ekki að fara út í þjálfun. Hans framtíð liggur í að halda merkjum hans á lofti og það er því viðskipta- og fyrirsætubransinn sem bíður Portúgalans eftir að hann hættir sem atvinnumaður í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×