Fótbolti

Vopnaðir menn réðust inn á heimili Vertonghen

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Vertonghen í leik með Tottenham gegn Burnley.
Vertonghen í leik með Tottenham gegn Burnley. Stu Forster/Getty

Belgíski varnarmaðurinn Jan Vertonghen ferðaðist með Tottenham Hotspur til Þýskalands þar sem liðið steinlá 3-0 gegn RB Leipzig í síðari leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Á meðan hann var þar var fjölskylda hans rænd.

Þetta kemur fram á vef BBC í dag.

Lögregluyfirvöld í Lundúnum hafa nú staðfest að alls fjórir hettuklæddir menn hafi brotist inn í hús Vertonghen á meðan fjölskylda hans var heima þann 10. mars. Sem betur fer sakaði engan.

„Þegar lögreglumenn mættu á svæðið var þeim greint frá því að fjórir hettuklæddir menn hefðu brotist inn í húsið vopnaðir hnífum og stolið ýmsum munum áður en þeir höfðu sig á brott,“ segir í tilkynningu lögreglu um málið sem er enn óleyst.

„Við styðjum við bakið á Jan og fjölskyldu hans á þessum erfiðu tímum. Allir sem gætu vitað eitthvað um málið mega stíga fram og láta lögregluna vita,“ sagði talsmaður Tottenham fyrir hönd félagsins um ránið.

Vertonghen er ekki eini leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar sem hefur lent í óprúttnum aðilum undanfarin misseri.

Sadio Mané, leikmaður Liverpool, var til að mynda einnig rændur á síðasta ári þegar hann var með Liverpool í Þýskalandi. Liðið mætti þá Bayern Munich, einnig í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×