Ökumaðurinn sem lést keyrði fólksbíl vestur Reykjanesbraut til móts við álverið í Straumsvík. Á sama tíma var vörubíl með snjótönn að framan ekið austur eftir brautinni.
Í skýrslunni segir að akstursaðstæður hafi verið erfiðar; snjókoma, skafrenningur, þæfingssnjór, mikil hálka og myrkur.
Ökumaður vörubílsins kvaðst hafa séð fólksbílinn koma á móti sér í nokkurri fjarlægð á réttum vegarhelmingi.
Örstuttu seinna hafi svo ökumaður fólksbílsins misst stjórn á bifreiðinni sem rann inn á rangan vegarhelming og í veg fyrir vörubílinn. Við áreksturinn hlaut ökumaður fólksbílsins alvarlega höfuðáverka og lést hann af völdum þeirra.
Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir að samkvæmt niðurstöðum áfengis- og lyfjarannsókna á ökumanni fólksbílsins var umtalsvert alkóhól í blóði hans. Niðurstöður sams konar rannsókna á ökumanni vörubílsins voru neikvæðar.
Í orsakagreiningu slyssins segir að ökumaður fólksbílsins hafi verið ofurölvi. Hann hafi misst stjórn á bíl sínum sem rann yfir á öfugan vegarhelming í veg fyrir vörubíl með snjótönn.
Þá hafi ástandi fólksbílsins verið ábótavant auk þess sem snjótönn vörubílsins sé sérstaklega hættuleg gagnvart ákomum á hlið fólksbíls.
Rannsóknarnefndin leggur til að Samgöngustofa og Vinnueftirlitið taki til skoðunar öryggismál varðandi snjómokstursbúnað á ökutækjum.
Vörubílar og vinnuvélar með snjómokstursbúnað geti verið hættulegar öðrum ökutækjum og vegfarendum í umferðinni. Þá sé þessi búnaður almennt ekki hannaður með árekstrarkröfur í huga.
Þá ítrekar nefndin fyrir ábendingar sínar um akstur undir áhrifum áfengis og telur „nauðsynlegt að koma þeim skilaboðum áfram á framfæri við ökumenn að þeir aki ekki undir neinum kringumstæðum eftir að hafa neytt áfengis.“