Fótbolti

Ödega­ard fékk ekki treyju­númer hjá Real | Ó­vissa með fram­tíðina

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Martin Ödegaard lék vel með Arsenal á síðustu leiktíð.
Martin Ödegaard lék vel með Arsenal á síðustu leiktíð. Shaun Botterill/Getty Images

Framtíð norska leikmannsins Martins Ödegaard hjá Real Madrid er í óvissu þar sem leikmaðurinn fékk ekki treyjunúmer hjá Madrídar-liðinu og verður því ekki í leikmannahópi liðsins þegar La Liga, spænska úrvalsdeildin, fer af stað um helgina.

Ödegaard var á láni hjá Arsenal á síðustu leiktíð og Mikel Arteta hefur ekki farið leynt með aðdáun sína á leikmanninum. Talið var að Ödegaard myndi fá tækifæri í Madrídarborg á leiktíðinni. Sérstaklega eftir að Carlo Ancelotti tók við liðinu á nýjan leik en Ancelotti leiðist ekki að spila flinkum leikmönnum í „holunni.“

Ljóst er að hinn 22 ára gamli Ödegaard fær ekki tækifæri um helgina þar sem hann hefur ekki fengið treyjunúmer hjá Madríd og getur því ekki verið í leikmannahópi liðsins um helgina. Dani Ceballos og Jesus Vallejo hafa heldur ekki verið skráðir.

Samkvæmt frétt enska fjölmiðilsins Metro er talið að Ödegaard gæti verið skráður þegar brottför Raphael Varane verður endanlega staðfest en franski miðvörðurinn er búinn að ná samkomulagi við enska félagið Manchester United.

Það er ljóst að Arteta og stuðningsfólk Arsenal krossar fingur og vonast til að Ödegaard verði ekki skráður svo hann geti snúið aftur til Lundúna. Hvort og hvenær það gerist verður að koma í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×