Leiðtogafundur NATO í Madrid er þegar orðinn sögulegur eftir að Tyrkir létu af andstöðu sinni við aðild Finna og Svía að bandalaginu í gær. Jens Stoltenberg aðalframkvæmdastjóri NATO reiknar með að endanlega verði gengið frá formlegu boði til Svía og Finna um aðild að bandalaginu á fundinum í dag.

„Það er fordæmalaus hraði. Ég tel erfitt að finna aðildarferli þar sem svo fáar vikur líða milli umsókna, sem lagðar voru fram í maí, og boðs um aðild sem gerist núna. Síðan þurfa auðvitað þrjátíu þjóðþing að staðfesta aðildina og það tekur alltaf einhvern tíma. En ég vænti þess að það gangi einnig mjög hratt fyrir sig,“ sagði Stoltenberg í morgun.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sækir leiðtogafundinn ásamt Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur utanríkisráðherra. Hún segir Ísland hafa stutt aðildarumsókn Finna og Svía skilyrðislaust.

„Þannig að sjálfsögðu fögnum við þessu. En um leið höfum við sagt að okkur finnist það ekki rétta leiðin af Tyrklandi að setja skilyrði um óskyld mál við inngöngu þessara þjóða í bandalagið,“ segir Katrín.
Svíar og Finnar væru sterkar lýðræðisþjóðir með sterka félagslega innviði.
„Ísland er því augljóslega ánægt að fá þessi tvö ríki í bandalagið. Það mun styrkja rödd Norðurlanda innan bandalagsins. Norðurlöndin deila með sér sterkum lýðræðislegum gildum, mannréttindum og félagslegum innviðum,“ segir Katrín.
Stoltenberg segir að á fundinum verði samþykktar mestu breytingar á stefnu bandalagsins frá lokum kalda stríðsins með fjölgun í viðbragðssveitum og staðsetningu þungavopna í austurhluta bandalagsins. Þá verði kynntar auknar stuðningsaðgerðir við Úkraínu.