Samtals er kaupverðið því þrjátíu og einn milljarður króna. Þrjátíu prósent kaupverðs verður greitt með reiðufé og afgangurinn með hlutabréfum í Síldarvinnslunni. Tilkynnt var um kaupin í gær en með þessum viðskiptum verða seljendur Vísis meðal kjölfestufjárfesta í Síldarvinnslunni og fara með átta prósenta hlut í fyrirtækinu og verða fimmti stærsti hluthafinn.
Síldarvinnslan var skráð á markað í fyrra en stærsti eigandi hennar er Samherji sem fer með um þriðjungshlut.
Vísir er yfir fimmtíu ára fyrirtæki í Grindavík og hefur frá upphafi verið í eigu sömu fjölskyldu eða afkomenda Páls H. Pálssonar og Margrétar Sighvatsdóttur en alls eignuðust þau sex börn. Eigi hvert afkvæmi hjónanna jafn stóran hlut í Vísi fær hvert og eitt þannig um þrjá komma þrjá milljarða í sinn hlut, einn milljarð í reiðufé og restin er greidd með hlutafé í Síldarvinnslunni.
Gunnþór B. Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar er ánægður með kaupin.
„Vísir er gamalgróið bolfiskfélag og er búið að fjárfesta í hátækni bolfiskvinnslu í Grindavík. Að sama skapi erum við með umtalsverðar aflaheimildir í bolfiski og sáum tækifæri í samstarfi við eigendur Vísis og þetta fyrirtæki. Það liggur fyrir að það er töluverð samlegð í sameinuðum fyrirtækjum. Þessi félög eiga að geta orðið töluvert sterkari þegar kemur að markaðsstarfi og nýtingu aflaheimilda og búið til meiri verðmæti úr þeim aflaheimildum sem við eigum í heild,“ segir Gunnþór.
Höfuðstöðvar bolfiskvinnslu Síldarvinnslunnar hf. verða hjá Vísi hf. í Grindavík að sögn Gunnþórs. Ekki sé búið að ákveða hvað verði um aðra bolfiskvinnslu fyrirtækisins.
„Við höfum ekki tekið afstöðu til annarrar bolfiskvinnslu Síldarvinnslunnar. Við erum litlir í bolfiski, erum með litla vinnslu á Seyðisfirði og það hefur engin afstaða verði tekin til hennar með þessum kaupum,“ segir Gunnþór.
Ætla að dansa í kringum viðmiðunarmörk kvótaþaksins
Aðspurður um hvort Síldarvinnslan fari ekki yfir kvótaþak í ýmsum tegundum með þessum kaupum svarar Gunnþór:
„ Eins og kemur fram í tilkynningunni erum við að dansa í kringum viðmiðunarmörk kvótaþaksins. Það eru þarna stofnar eins og loðna sem sveiflast gríðarlega milli ára. Þannig að það er meiri sveifla í uppsjávarstofnun en bolfiskstofnum milli ára. Við verðum einhvers staðar á þessari viðmiðunarlínu og aðlögum okkur að því,“ segir Gunnþór.
Hluthafafundur Síldarvinnslunnar hf. og Samkeppniseftirlitið eiga eftir að samþykkja kaupin.
Hlutabréfamarkaðurinn tók vel í fréttina í morgun en alls höfðu bréf í Síldarvinnslunni hækkað um 8,4 prósent.