Fjöldi sveitarfélaga glímir við erfiðan fjárhag en Samband íslenskra sveitarfélaga sendi nýverið bréf til tuttugu og eins sveitarfélags sem ekki uppfylltu öll skilyrði laga um fjárhag þeirra. Sigurður Ármann Snævarr sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs sambandsins segir fjárhagsstöðu sveitarfélaganna hafa verið erfiða mjög lengi.
Hrunið hafi komið illa við þau, síðan hafi covid faraldurinn komið og nú síðast mikil verðbólga og vaxtahækkanir. Stjórnvöld hafi ætlast til að sveitarfélögin færu í miklar fjárfestingar í faraldrinum.
„Sum gerðu það og sitja dálítið uppi með svarta Pétur núna,“segir Sigurður Ármann. Þá hafi íbúum fjölgað mjög hratt í sumum sveitarfélögum sem kallað hafi á mikla innviðauppbyggingu.

„Og við erum að sjá að hefðbundnir tekjustofnar sveitarfélaga duga alls engan veginn fyrir slíkri uppbyggingu. Það verða að koma til einhvers konar innviðauppbyggingargjöld,“segir Sigurður Ármann.
Mjög skýrt dæmi megi finna í Mosfellsbæ sem tekið hafi upp slík gjöld og komist nokkuð klakklaust frá kostnaði við mikla uppbyggingu á meðan Árborg sitji í súpunni. Ekki væri hins vegar gert ráð fyrir slíku gjaldi í lögum þótt það hafi gengið í Mosfellsbæ. Stóri vandinn hjá mjög mörgum sveitarfélögum væri aftur á móti vanfjármagnaðar skuldbindingar sem ríkið hafi lagt á sveitarfélögin eftir að þau tóku yfir málefni fatlaðra árið 2011.
„Þannig að við erum að sjá að útgjöld vegna málefna fatlaðs fólks séu 14 til 15 milljörðum umfram tekjur á árinu 2021. Samt sem áður eru margvíslegir þættir laganna, sem eru réttindalög, sem sveitarfélögin hafa alls ekki náð að uppfylla. Ef þau ætla að gera það hleypur það á milljörðum, jafnvel tugum milljarða á næstu árum,“ segir sviðsstjórinn.
Sameiginlegur halli sveitarfélaganna árið 2021 væri nánast hinn sami og hallinn á málaflokknum. Það væri löngu tímabært að endurskoða tekjustofna sveitarfélaganna frá grunni.
„Það hefur verið okkar skoðun. Að það sé brýnt að gera það," segir Sigurður Ármann Snævarr.