Ríkisstjórnir landanna segja að bannið hafi verið lagt á til að halda uppi allsherjarreglu og koma í veg fyrir gyðingahatur. Fréttamiðilinn Reuters greinir frá því að Palestínumönnum, sem búa í Frakklandi eða Þýskalandi, líði eins og tjáningarfrelsi þeirra sé skert.
Frönsk kona, hin tuttugu ára gamla Messika Medjoub, sem hefur mótmælt í París þrátt fyrir bannið, segir í samtali við Reuters að henni líði eins og verið sé að þagga niður í sér og öðrum sem vilji koma óbreyttum borgurum á Gasasvæðinu til hjálpar. Hún sé hrædd og hafi áhyggjur af því að vera ásökuð um að réttlæta hryðjuverk þegar hún og aðrir mótmælendur vilji einfaldlega halda uppi merkjum mannúðar. Hún hélt ræðu á mótmælum í París í dag en lögregla braut mótmælin á bak aftur með táragas og vatnsbyssur að vopni.
Mikilvægt í ljósi sögunnar
Lögreglan í Berlín í Þýskalandi hefur veitt Palestínumönnum leyfi til mótmæla tvisvar síðan Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels lýsti yfir stríði, hinn 7. október síðastliðinn. 190 hafa verið handteknir í mótmælum í Þýskalandi síðan þá.
„Það er okkar skylda að taka þátt í að vernda öryggi Ísraels, sögunnar vegna – ábyrgðar okkar á Helförinni,“ sagði Olaf Scholz kanslari Þýskalands í síðustu viku. Átökin hafa vakið sérstaklega mikið umtal í Þýskalandi vegna þessa. Eins og fyrr greinir hafa Frakkar einnig tekið hart á málum og hafa 327 verið handteknir síðan 7. október fyrir andúð gegn gyðingum.