Skoðun

Sam­ræmd próf jafna stöðuna

Jón Pétur Zimsen skrifar

Áhrifamikið fólk í skólamálum hefur haft horn í síðu samræmdra prófa og fundið þeim eitthvað til foráttu og má þar nefna þrennt helst.

  1. Þau stýra kennslu of mikið
  2. Þau eru gamaldags
  3. Þau meta ekki allt sem aðalnámskrá boðar

1. Svar við fyrsta liðnum blasir við og er hann byggður annaðhvort á misskilningi eða fáfræði. Samræmd próf eiga að vera úr samræmdri námskrá. Þannig að það er ekkert að því að kennt sé þannig að útkoman verði góð niðurstaða á samræmdu prófi. Hægt er að flétta aðra þætti skólastarfsins sem prófið metur ekki með þægilegum hætti inn í kennsluna. Annars treysti ég kennurum til að stýra sinni kennslu.

2. Hvað er gamaldags og hvað ekki og er gamaldags verra en eitthvað sem er svo nýtt og óprófað að það úreltist á nokkrum mánuðum? Þetta atriði sýnir hve rökþrota óvildarmenn samræmdra prófa eru.

3. Ekkert námsmat getur metið það sem núverandi aðalnámskrá boðar. Miðað við innihald og uppbyggingu hennar gætu 10 kennarar heilt skólaár varla metið það sem hún boðar.

Samræmd próf eru sjálfsagður mælikvarði enda er samræmdur námstími og samræmd námskrá. Jafnræðisreglan er brotin á nemendum við lok grunnskóla. Svo gott sem ekkert samræmi er í námsmati nemenda, á milli skóla, við lok grunnskóla og jafnræðis því ekki gætt.

Samræmd próf jafna stöðuna. Börn sem koma frá heimilum þar sem efnahagur er bágborin, félagsleg staða veik og foreldrar með litla menntun geta frekar brotist út úr viðjum erfiðleika á jafnréttisgrunni samræmdra prófa.

Almenningur/stjórnvöld eiga rétt á því að fá að vita hvernig nemendum í skyldunámsskólum gengur að tileinka sér viðmið aðalnámskrár. Nógu mikið kosta skólarnir.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×