Skoðun

Staða Ís­lands og niður­brot vest­rænnar sam­vinnu

Þorsteinn Kristinsson skrifar

Vestræn samvinna er í dag í sinni dýpstu krísu frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Vandamálin eiga sér nokkra forsögu. Engu að síður eru þær breytingar sem hafa átt sér stað síðustu vikur svo hraðar og umfangsmiklar, að telja má líklegt að varnarsamstarf Bandaríkjanna og Evrópu muni breytast í grundvallaratriðum á næstu misserum. Þetta mun hafa víðtækar afleiðingar fyrir stöðu Íslands í alþjóðakerfinu, bæði hvað varðar öryggismál og efnahagsmál. Í þessum pistli lít ég fyrst yfir eðli þeirra breytinga sem nú eiga sér stað og því næst á þá þýðingu sem þær hafa fyrir Ísland.

Frá lokum síðari heimsstyrjaldar hefur vestræn samvinna byggt á fimm grunnstoðum. Í fyrsta lagi á sameiginlegum vörnum á grundvelli Atlantshafsbandalagsins undir forystu Bandaríkjanna. Í öðru lagi á efnahagslegum samruna Evrópu til að tryggja frið í álfunni. Í þriðja lagi á frjálslyndum og lýðræðislegum gildum. Í fjórða lagi á frelsi í alþjóðaviðskiptum. Og í fimmta lagi á uppbyggingu alþjóðastofnanna og gerð alþjóðasamninga sem hlúa að fyrrnefndum markmiðum, ásamt því að tryggja lagalegt jafnræði ríkja og vernda fullveldi þeirra.

Þessi síðustu tvö atriði ná víðar en til samstarfs Vesturlanda, og eru að mörgu leyti hryggjarstykkið í því sem oft er kölluð hin frjálslynda alþjóðaskipan (e. Liberal International Order). Hin frjálslynda alþjóðaskipan myndar formlegar og óformlegar leikreglur alþjóðasamskipta, sér í lagi eftir lok kalda stríðsins, og er jafnframt einskonar sameiginlegt stýrikerfi alþjóðahagkerfisins. Á þessum stoðum hvílir samvinna og sameiginleg sýn Bandaríkjanna og Evrópu á meginatriði öryggis- og efnahagsmála í heiminum.

Í dag hafa Bandaríkin hins vegar að miklu eða öllu leyti snúið baki við öllum þessum grunnstoðum. Þessar stefnubreytingar eiga sér nokkurn aðdraganda en birtast nú með afdráttarlausari hætti en flestir gerðu ráð fyrir. Rýnum stuttlega í hverja stoð fyrir sig.

Atlantshafsbandalagið

Allt frá stofnun Atlantshafsbandalagsins lögðu Bandaríkin áherslu á að hafa óskoraða forystu yfir bandalaginu. Tillögum – sér í lagi frá Frökkum – um að Evrópuríki tækju að sér viðameira og sjálfstæðara hlutverk innan bandalagsins var ávallt mætt með eindreginni andstöðu í Bandaríkjanna. Forysta þeirra skyldi algjör. Sams konar andstöðu mátti síðar meir finna við fyrirætlanir um að auka vægi Evrópusambandsins í varnarmálum. Stefna Bandaríkjanna var sú að tilhögun öryggismála á meginlandi Evrópu skyldi ákveðin í Washington að svo miklu leyti sem hægt væri.

Á síðustu árum hefur þó fjarað undan þessari stefnu. Strategískt mikilvægi Evrópu hefur minnkað frá sjónarhorni Bandaríkjanna frá lokum kalda stríðsins. Kína hefur tekið við af Rússlandi sem helsti keppinautur Bandaríkjanna í alþjóðavettvangi, og þungamiðja alþjóðahagkerfisins hefur færst til Austur-Asíu, þar sem meirihluti mannskyns býr. Áherslur Bandaríkjanna hafa því í auknum mæli beinst vestur um Kyrrahaf.

Í Repúblikanaflokknum má greina tvo meginstrauma þegar kemur að öryggismálum í dag. Annar hópurinn vill draga stórlega úr umsvifum Bandaríkjanna í Evrópu og færa þau aðföng sem þar losna til Austur-Asíu til að halda niðri vaxandi áhrifum Kína. Hinn hópurinn eru svokallaðir einangrunarsinnar sem hafa heilt yfir miklar efasemdir um umsvif og skuldbindingar Bandaríkjanna í öðrum heimshlutum. Þeir vilja draga úr bæði efnahagslegum og hernaðarlegum umsvifum Bandaríkjanna, hvort sem það er í Evrópu eða Asíu. Það hvor hópurinn verður ofan á mun hafa víðtækar afleiðingar fyrir bandalagsríki Bandaríkjanna í Austur-Asíu á komandi árum.

Fyrir Evrópu ber þetta hins vegar allt að sama brunni: Bandaríkin eru á útleið. Núverandi Bandaríkjaforseti lítur á bandalagsríki í Evrópu sem vanþakklátar afætur sem misnota örlæti Bandaríkjanna í öryggsimálum. Hann hefur ítrekað gefið til kynna að Bandaríkin muni ekki koma bandalagsríkjum sínum í Evrópu til varnar ef til stríðs kemur. Friedrich Merz, verðandi kanslari Þýskalands, hefur sagt berum orðum að Evrópa geti ekki lengur reitt sig varnir Atlantshafsbandalagsins. Hann hefur þegar hafið viðræður við Frakka og Breta um sameiginlegan fælingarmátt Evrópu á grundvelli kjarnorkuvopna þeirra síðarnefndu. Þá segir Merz að það sé tímabært að Evrópa öðlist „sjálfstæði frá Bandaríkjunum“.

Yfirlýsingar af þessu tagi voru óhugsandi fyrir fáeinum árum. Í dag er staða Atlantshafsbandalagsins hins vegar veikari en nokkru sinni fyrr. Öll helstu ríki Evrópu eru í dag að stórauka framlög til hernaðarmála og búa sig undir að skipuleggja varnir álfunnar án aðkomu Bandaríkjanna.

Stuðningur við Evrópusamrunann

Allt frá stofnun Kola- og stálbandalagsins 1951 hafa Bandaríkin stutt við efnahagslegan samruna Evrópu, bæði til tryggja frið í álfunni, en einnig til að styrkja og treysta sína helstu bandamenn í kalda stríðinu. Eftir lok kalda stríðsins voru Bandaríkin jafnframt jákvæð um stækkun Evrópusambandins til austurs.

En þetta hefur líka breyst. Bandaríkin líta í auknum mæli á Evrópusambandið sem keppinaut, sér í lagi í alþjóðahagkerfinu. Tekið sem heild er Evrópusambandið eitt af þremur stærstu hagkerfum heims ásamt Kína og Bandaríkjunum. Sambandið hefur því töluverðan slagkraft þegar kemur að gerð fríverslunarsamninga og hefur jafnframt sýnt getu og vilja til að setja reglur og skatta á starfsemi alþjóðlegra stórfyrirækja – þ.m.t. bandarískra. Þetta gremst Bandaríkjunum, en þau hafa sérstaka óbeit á regluverki sambandsins þegar kemur að loftslagsmálum, matvælaöryggi og tækniiðnaði. Núverandi Bandaríkjaforseti hefur gengið svo langt að segja að Evrópusambandið hafi sérstaklega verið stofnað til að „svína á Bandaríkjunum“.

Frá því hann var kosinn fyrst til valda 2016 hefur Trump lagt sérstaka rækt við að styðja popúlíska hægri flokka í Evrópu sem eru andsnúnir Evrópusambandinu. Ásamt félaga sínum Elon Musk, ríkasta manni heims, hefur Bandaríkjaforseti haft fordæmalaus afskipti af kosningum í Evrópuríkjum, nú síðast með því að styðja öfga hægriflokkinn AfD í nýafstöðnum þingkosningum í Þýskalandi. Auk þess að eiga hugmyndafræðilega samleið með slíkum flokkum, er markmiðið augljóslega að veikja samstöðu Evrópuríkja og grafa undan Evrópusambandinu. Þar með vill hann veikja það mótvægi sem Evrópusambandið veitir gegn Bandaríkjunum í alþjóðahagkerfinu, sem og getu sambandsins til að skattleggja bandarísk stórfyrirtæki og setja reglur um starfsemi þeirra.

Frjálslynd og lýðræðisleg gildi

Um þau gildi sem ráða ríkjum í Hvíta húsinu þarf ekki að fjölyrða. Trump hefur sérstakt dálæti á einræðisherrum víða um heim, en sýnir á sama tíma lítt dulda fyrirlitningu á lýðræðislega kjörnum þjóðarleiðtogum margra sinni helstu bandamanna. Í síðustu viku lýsti hann Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu, sem einræðisherra og hélt því ranglega fram að Úkraína ætti upptökin að stríðinu þar í landi. Á sama tíma þverneitar Trump að kalla Putin einræðisherra þó ítrekað sé gengið á hann.

Þá hefur Trump kallað eftir allsherjar þjóðernishreinsunum í Palestínu, með því að gera tvær milljónir manna brottrækar frá Gaza og taka landsvæðið undir stjórn Bandaríkjanna. Heima í Bandaríkjunum reyndi Trump að snúa við úrslitum forsetakosninganna sem hann tapaði fyrir fjórum árum, og hefur nú náðað alla þá sem réðust á þinghúsið í þeim tilgangi að umbylta niðurstöðum kosninganna.

Frelsi í alþjóðaviðskiptum

Frá lokum síðari heimsstyrjaldar hefur það verið lykilstef í bandarískri utanríkistefnu að þrýsta á um frjáls alþjóðaviðskipti á flestum (en ekki alveg öllum) sviðum. Þessi stefna kristallast í þéttu neti samninga og stofnana – ekki síst GATT samningnum og arftaka hans Alþjóðaviðskiptamála­stofnuninni – sem Bandaríkin voru leiðandi í að stofna á síðari hluta 20. aldar.

Þetta er liðin tíð. Efnahagsleg áhrif hnattvæðingar hafa grafið undan ýmsum framleiðslugreinum bandaríska hagkerfisins sem geta illa keppt við Kína og önnur ríki í Austur-Asíu. Stórir hópar kjósenda kenna þessari þróun um bága stöðu sína og kjósa eftir því. Þrátt fyrir að Bandaríkin hafi sjálf haft forystu um uppbyggingu alþjóðaviðskiptakerfisins, líta Trump og hans stuðningsfólk á þetta kerfi sem eitt allsherjar svindl á Bandaríkjunum. Tollar og viðskiptahindranir voru lykilstefnumál í báðum hans kosningabaráttum, og þeim hefur hann beitt af krafti, bæði gegn bandalagsþjóðum og öðrum.

Það er mikilvægt að taka fram að þessi stefnubreyting einskorðast ekki við Trump eða Repúblikanaflokkinn. Ríkisstjórn Joe Biden gerði litlar sem engar breytingar á þeirri stefnu sem Trump markaði í alþjóðaviðskiptum á sínu fyrsta kjörtímabili. Þótt orðræðan kunna að hljóma öðruvísi úr röðum Demókrata, er ljóst að stefnan um óhefta frjálshyggju í alþjóðaviðskiptum er dauð í báðum flokkum vestanhafs. Innflutningshömlur, tollur og ýmis konar ríkisafskipti eru komin til að vera.

En þetta snýst ekki bara um að vernda og skapa störf í framleiðslugreinum. Efnahagsleg tól af þessu tagi eru sífellt mikilvægari hluti af stórveldasamkeppni nútímans, sem að miklu leyti er háð á efnahagssviðinu. Í huga Trump, líkt og kollega hans Xi Jinping í Kína, eru þetta jafnframt góð tæki til að refsa minni ríkjum og þvinga þau til fylgilags. Þetta eru háskalegir tímar fyrir smærri ríki heims.

Alþjóðastofnanir og alþjóðasamningar

Hlutverk alþjóðastofnanna og alþjóðasamninga er að formfesta langtíma samstarf ríkja, byggja traust þeirra á milli og auka fyrirsjáanleika í samskiptum með skýrum reglum. Í raun má segja að stærri og valdameiri ríki skuldbindi sig til við fylgja almennum leikreglum og koma fram við minni ríki af virðingu og jafnræði, og uppskera í staðin langtíma samstarf og traust. Þetta er ekki síst mikilvægt í alþjóðahagkerfinu, þar sem flest ríki sjá sér gagnkvæma hagsmuni af því að hafa skýrar leikreglur og traust í viðskiptum sín á milli.

Eins og fyrr segir voru Bandaríkin ásamt bandamönnum sínum í Evrópu leiðandi í því að byggja upp núverandi net alþjóðastofnana og samninga á síðari hluta 20. aldar. Þetta kerfi er oft kallað hin frjálslynda alþjóðaskipan. Sem valdamesta ríki heims, sáu Bandaríkin til þess að hagsmunir þeirra væru kyrfilega tryggðir í þessum stofnunum og samningum. Í raun hefur helsta gagnrýnin á þessar stofnanir og samninga löngum verið sú að þær hygli Bandaríkjunum um of á kostnað annarra ríkja.

Það kemur því mörgum á óvart að Bandaríkin skuli í dag vera fremst í flokki þeirra ríkja sem rífa niður gildandi samninga og stofnanir. Þessi undarlega staða á sér nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi hefur alþjóðahagkerfið breyst. Þær reglur sem Bandaríkin formfestu í ríkjandi alþjóðastofnunum og samningum á sínum tíma, endurspegluðu hagsmuni Bandaríkjanna þá. Þessir hagsmunir hafa að einhverju leyti breyst með breyttu landslagi efnahagsmála. Þetta birtist skýrast í deilum um alþjóðaviðskipti. Í öðru lagi eru Bandaríkin valdaminni í dag en þau voru á árum áður. Önnur ríki, þar með talið beinir keppinautar eins og Kína, hafa í dag aukin áhrif innan alþjóðakerfisins. Af þessum sökum eru Bandaríkin síður fær um að sveigja alþjóðastofnanir og breyta samningum eftir þeirra hentisemi líkt og þau gerðu áður fyrr.

Loks hefur ávallt verið togstreita í bandarískri utanríkisstefnu milli þeirra sem líta á alþjóðastofnanir og alþjóðasamninga sem margföldunaráhrif á völd og áhrif Bandaríkjanna, og hinna sem líta á slíka samninga sem óþarfa hömlur á gjörðir þeirra. Af hverju, spyrja þeir síðarnefndu, ættu Bandaríkin að binda eigin hendur að óþörfu, ef þau sem valdamesta ríki heims geta allt eins fengið sitt fram í krafti stærðar og styrks án þess að nokkur fái rönd við reist? Bandaríkin hafa jú kosið að standa utan við ýmsar alþjóðastofnanir og samninga (t.d. Alþjóðastríðsglæpadómstólinn), og hafa þar að auki langt því frá hreint sakavottorð þegar kemur að þeim samningum sem þeir eru aðilir að. Ríkisstjórn George W. Bush í byrjun þessarar aldar og gjörðir hennar endurspegla að mörgu leyti slíkt óþol gagnvart alþjóðastofnunum og skeytingarleysi gagnar alþjóðasamningum og alþjóðalögum. Engu að síður hafa þeir sem styðja hina frjálslyndu alþjóðaskipan lengst af haft yfirhöndina í Washington og lagt sitt af mörkum til að viðhalda helstu grunnstoðum hennar.

Hvað sem því líður, er sá tími nú á enda. Bandaríkin hafa nú að miklu leiti snúist gegn þeim alþjóðastofnunum og samningum sem þau voru í forystu um að byggja. Ríkisstjórn Trump er sérstaklega öfgakennd birtingarmynd þessarar stefnubreytingar. Trump lítur ekki einungis á stofnanir og samninga sem óþarfa hömlur, heldur beinlínis sem samsæri gegn bandarísku þjóðinni. Hann lítur á helstu samninga og bandalög sem glórulausa góðgerðarstarfsemi af hálfu Bandaríkjanna, og á bandalagsríki sem afætur sem skulda honum fé. Trump hefur nú í annað sinn dregið Bandaríkin úr Parísarsáttmálanum, alþjóðasamstarfi í loftslagsmálum, og úr Alþjóðaheilbrigðismála­stofnuninni. Jafnframt hefur hann grafið undan starfi annarra undirstofnana Sameinuðu þjóðanna, svo sem í menningar- og mannréttindamálum. Þá hefur hann gengið enn harðar fram en forverar hans í að ofsækja starfsmenn Alþjóðastríðsglæpadómstólsins og fjölskyldur þeirra.

Á sviði alþjóðaviðskipta er viðsnúningurinn hvað róttækastur. Starf Alþjóðaviðskiptamála­stofnunarinnar hefur verið í uppnámi frá 2016 vegna aðgerða Bandaríkjanna sem hunsa gerða samninga og hafa vísvitandi lamað dómstól stofnunarinnar. Sömu sögu er að segja um viðskiptasamning Bandaríkjanna við Kanada og Mexíkó sem var endursaminn að frumkvæði Trump á hans fyrsta kjörtímabili. Þann samning hefur hann nú brotið og hótar að leggja 25% innflutningstolla á bæði ríki ef þau verða ekki við hans kröfum. Trump hefur nú þegar lagt tolla á Kína, líkt og á fyrri kjörtímabili hans, og á hverjum degi bætast við nýjar hótanir um tolla, nú síðast gagnvart Evrópusambandinu.

Að lokum verður ekki hjá því komist að minna á hótanir Bandaríkjaforseta gegn fullveldi annarra ríkja, svo sem Panama, Danmörku og Kanada. Panama-skurðurinn er ein mikilvægasta siglingaleið heims, og Trump gerir kröfu um að Panama láti hann af hendi til Bandaríkjanna. Kröfur Trump á Danmörku og Kanada eru enn róttækari, en hann hefur ítrekað líst yfir vilja sínum til að innlima Kanada og Grænland í Bandaríkin. Í tilfelli Grænlands hefur Trump gefið til kynna að efnahagsþvinganir og beiting hervalds komi til greina til að ná því fram. Hótanir sem þessar gegn bandalagsþjóðum í Atlantshafsbandalaginu eru auðvitað fullkomlega fordæmalausar, og margir trúa því hreinlega ekki að þarna búi alvara að baki. Það er hins vegar ljóst að bæði ríkisstjórnir Kanada og Danmerkur taka þessum hótunum af fullri alvöru.

Niðurbrot vestrænnar samvinnu

Líkt og ljóst er af þessari yfirferð eru grunnstoðir vestrænnar samvinnu í molum. Þó að aðgerðir ríkistjórnar Donald Trump séu alvarlegasta árás á vestræna samvinnu frá upphafi, verður ekki fram hjá því litið að margt af þessu hefur átt sér lengri aðdraganda og dýpri rætur. Þeir efnahagslegu og strategísku hagsmunir sem bundu Evrópu og Bandaríkin saman á seinni hluta tuttugustu aldar eru ekki til staðar lengur með sama hætti. Og nú er ljóst að sú hugmyndafræðilega samleið sem hélt bandalaginu á lífi er á hröðu undanhaldi.

Trump og hans ríkisstjórn er einstaklega róttæk birtingarmynd þessara breytinga. Það væru hins vegar alvarleg mistök að halda að stefnubreytingin einskorðist við hann eða Repúblikanaflokkinn. Evrópa og Bandaríkin hafa um árabil hægt og rólega þróast í sundur, og það verður að teljast ákaflega ólíklegt að það grói um heilt þó Demókratar taki aftur við völdum í Washington. Í öllu falli er ljóst að Bandaríkjamenn hafa nú tvisvar kosið Trump og hans fólk til valda – í seinna skiptið með verulegum meirihluta atkvæði og með meirihluta í báðum deildum þingsins. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr, er þetta sú vegferð sem Bandaríkin hafa valið. Utanríkisstefna Íslands verður að taka mið af þeim raunveruleika.

Ógnir við öryggi og hagsmuni Íslands

Þegar staða Íslands í alþjóðakerfinu er skoðuð, er ljóst að hagsæld þjóðarinnar byggir að miklu leyti á afrakstri vestrænnar samvinnu. Það alþjóðlega umhverfi sem sem hún hefur búið okkur hefur tryggt bæði öryggi landsins og gert efnahag okkar kleift að vaxa og dafna. Sú upplausn sem nú ríkir í vestrænni samvinnu er þar af leiðandi meiri háttar áhyggjuefni fyrir hagsmuni Íslands. Þær hættur sem við stöndum frammi fyrir er einkum að finna á þremur sviðum.

Hin frjálslynda alþjóðaskipan

Í fyrsta lagi er undanhald alþjóðastofnana og samninga, sem og viðmiða og gilda í samskiptum ríkja, meiriháttar ógn við öll smærri lönd, þar með talið Ísland. Eins og fyrr segir er hagsmunum smærri ríkja að jafnaði best borgið með fjölþjóðlegu samstarfi og samningum, þar sem lagalegt jafnræði ríkja og almennar leikreglur gilda. Nú er grundvöllur slíkra samskipta að veikjast og þess í stað skín í hráa valdbeitingu í samskiptum ríkja. Eins og gefur að skilja standa minni ríki berskjölduð gagnvart ofríki og þvingunum stærri ríkja í slíkum aðstæðum. Jafnframt er undanhald frjálsra alþjóðaviðskipta sérlega varasöm þróun fyrir smærri ríki, enda eru þau hlutfallslega mun háðari alþjóðaviðskiptum en stærri ríki. Núverandi veiking hinnar frjálslyndu alþjóðaskipanar er þar af leiðandi kerfislæg ógn við langtímahagsmuni allra smærri ríkja.

Evrópusamruninn

Í öðru lagi þurfa íslensk stjórnvöld að huga vandlega að stöðu landsins í Evrópusamrunanum í núverandi aðstæðum. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið tryggir Íslandi beinan aðgang að okkar langsamlega stærsta og mikilvægasta útflutningsmarkaði. Evrópusamstarfið ásamt Norðurlandasamstarfi hefur jafnframt veitt Íslandi mikilvægt samfélagslegt skjól frá því landið varð sjálfstætt.

Sem betur fer standa stofnanir Evrópusamrunans styrkum fótum þrátt fyrir nýlegar tilraunir Bandaríkjanna til að grafa undan þeim. Raunar er margt sem bendir til þess að núverandi upplausn í vestrænni samvinnu sé að styrkja frekar en veikja samheldni Evrópuríkja. Flest ríki Evrópu virðast gera sér grein fyrir því að sameinaður styrkur Evrópusambandins er það eina sem getur gert Evópu gildandi í stórveldasamkeppni nútímans og varið hagsmuni álfunnar.

Staða samningsins um Evrópska efnahagssvæðið er hins vegar áhyggjuefni. Þó Ísland og hin EES-löndin séu hluti af Evrópska efnahagssvæðinu, eru þau ekki hluti af ytra tollabandalagi Evrópusambandsins. Þau efnahagslegu tæki og tól sem Evrópusambandið hefur þróað á undanförnum misserum til að verjast gegn mögulegum efnahagsþvingunum stórvelda eins og Kína og Bandaríkjunum eru jafnframt að miklu leyti utan við málefnasvið EES-samningsins, líkt og bent er á í nýlegri skýrslu fastanefndar EFTA. Hættan er sú að Ísland og hin EES-löndin gætu orðið bein eða óbein fórnarlömb slíkra efnahagsþvingana ef kemur til tollastríðs eða annarra efnahagsátaka milli Evrópu og annarra stórvelda.

EES-samningurinn var saminn á tíunda áratug síðustu aldar sem að mörgu leyti var hápunktur frjálsra viðskipta og opnunar alþjóðahagkerfisins. Vandamál af þessu tagi voru ekki til staðar þá. Það er mikilvægt að íslensk stjórnvöld skoða vandlega hvort EES-samningurinn tryggi efnahagslega hagsmuni landsins nægilega vel ef efnahagsleg átök stórvelda halda áfram að þróast á verri veg.

Fullveldi Íslands og öryggi á Norðurslóðum

Í þriðja lagi er loks rétt að víkja að öryggismálum landsins, en á þessu sviði er stærsta ógnin sem Ísland stendur frammi fyrir. Öryggi í okkar heimshluta hefur frá lokum seinni heimsstyrjaldar verið tryggt af sameiginlegum vörnum Atlantshafsbandalagsins. Eins og rakið var hér að ofan ríkir hins vegar alger upplausn í því samstarfi í dag, og er margt sem bendir til þess að Bandaríkin séu að draga sig úr vörnum Evrópu til frambúðar.

Bent hefur verið á, að þótt Bandaríkin yfirgefi meginland Evrópu, hafi þeir áfram ríka hagsmuni á Norðurslóðum sem þeir vilja verja. Af þessum sökum standi tvíhliða varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna áfram styrkum fótum hvað sem framtíð Atlantshafsbandalagsins líður.

Þetta er vissulega rétt – svo langt sem það nær. Það verður hins vegar ekki framhjá því litið að áhugi Bandaríkjastjórnar á Norðurslóðum hefur undanfarið fyrst og fremst birst með ítrekuðum hótunum um að innlima Grænland með góðu eða illu. Aðspurður segist forseti Bandaríkjanna ekki útiloka beitingu efnahagsþvinganna eða hervalds til að ná því fram. Þetta er gjörsamlega fordæmalaus staða og hefur valdið djúpri krísu í dönskum og grænlenskum stjórnmálum.

Það sem fyrst og fremst vakir fyrir ríkisstjórn Trump er að tryggja óskoruð yfirráð yfir Norður-Atlantshafi sem verður sífellt mikilvægara svæði eftir því sem siglingaleiðir um Norðurslóðir opnast með hlýnun jarðar. Bandaríski herinn hefur lengi haft viðveru á Grænlandi á grundvelli Atlantshafsbandalagsins og tvíhliða samninga við Danmörku. Forsætisráðherra Danmerkur hefur ítrekað sagt að það sé ekkert því til fyrirstöðu að auka þau umsvif á grundvelli núverandi varnarsamstarfs ríkjanna. En þar stendur hnífurinn í kúnni. Núverandi varnarsamstarf er eins og fyrr segir í fullkomnu uppnámi að frumkvæði Bandaríkjanna, sem eru að draga sig frá meginlandi Evrópu, og kæra sig ekki um að aðstaða þeirra á Grænlandi byggi á samningum við Danmörku. Hótanir Bandaríkjaforseta um innlimun Grænlands verða að skoðast í þessu ljósi. Það er langt því frá útséð hvar þetta endar. En ef fram fer sem horfir að varnarsamstarf Evrópu og Bandaríkjanna veikist til muna, eða jafnvel rofni alfarið, hlýtur það að teljast að minnsta kosti mögulegt – ef ekki líklegt – að Bandaríkin fylgi eftir hótunum sínum og taki yfir Grænland, jafnvel þó til þess þurfi hótinir, þvinganir eða þaðan af verra.

Þetta eru stórhættulegar aðstæður fyrir Ísland og vekur upp áleitnar spurningar um okkar eigin varnarsamning við Bandaríkin. Ef Bandaríkin eru tilbúin til þess að brjóta varnarsamninga sína við Danmörku, og hóta innlimun Grænlands með valdi, hversu örugg er staða Íslands? Eins óþægilegt og það kann að hljóma, þá komumst við einfaldlega ekki hjá því velta upp þeirri spurningu af fullri alvöru, hvort Bandaríkjunum í núverandi mynd sé treystandi til að virða fullveldi landsins og sjálfsákvörðunarrétt íslensku þjóðarinnar.

Hér er vissulega verið að velta upp einni allra myrkustu sviðsmynd sem til greina kemur fyrir Ísland – þ.e.a.s. beina ógn við fullveldi landsins. Hér er mikilvægt að stíga varlega til jarðar og hrapa ekki að ályktunum. Hins vegar er það ljóst á þessum tímapunkti að núverandi Bandaríkjaforseti ber litla sem enga virðingu fyrir alþjóðalögum eða fullveldi annarra ríkja. Það á við um bandalagsþjóðir sem og aðra. Eins og heimsmálin standa í dag, þá höfum við einfaldlega ekki annarra kosta völ en að skoða gaumgæfilega allar mögulegar sviðsmyndir og gera áætlanir í samræmi við það.

En jafnvel þó við lítum framhjá beinum ógnum við fullveldi landsins eru einnig aðrar hættulegar sviðsmyndir sem þarf að horfa til. Núverandi Bandaríkjastjórn hikar ekki við að beita hótunum og þvingunum til að fá sínu fram, burtsé frá gildandi samningum og áratuga vináttu milli ríkja. Ítrekaðar hótanir og kröfur gegn ríkjum undanfarið sýna þetta skýrt. Hér er rétt að staldra við nýlegar kröfur Bandaríkjanna á hendur Úkraínu um 500 milljarða dollara af framtíðartekjum af auðlindum landsins sem gjald fyrir veitta hernaðaraðstoð síðan innrás Rússlands hófst í landið. Virði þeirrar aðstoðar er metin á langtum minna, og var í öllu falli veitt án nokkurra skilyrða. Þrátt fyrir það, er ríkisstjórn Bandaríkjanna tilbúin til þess að nýta sér algjöra neyð Úkraínu, sem berst af veikum mætti fyrir tilvist sinni, til þess að reyna að hafa af þeim auðlindir þeirra.

Ísland er einnig ríkt af auðlindum. Við þurfum ekki mikið ímyndunarafl til að setja okkur í fótspor Úkraínumanna. Ég held að fæstir vilji hugsa til enda hver samningsstaða okkar væri ef Ísland væri einn daginn statt í neyð og Bandaríkin gera viðlíka kröfur í auðlindir landsins. Í ljósi þess sem hefur átt sér stað undanfarin misseri, hljótum við Íslendingar að velta því fyrir okkur hvort varnarsamningurinn við Bandaríkin sé besta leiðin til að verja fullveldi og hagsmuni landsins.

Framtíðarstaða Íslands

Eins og rætt var í upphafi eru ríki Evrópu um þessar mundir að endurskoða stöðu sína í öryggismálum frá grunni. Nú þegar hafa ríki Evrópu stóraukið hernaðarframlög og hafið samtal um mögulega framtíðarskipan öryggismála álfunnar án aðkomu Bandaríkjanna. Það er útilokað að vita hversu langt það samtal er komið, en á tímum sem þessum geta hlutir gerst mjög hratt. Af þessum sökum er gríðarlega mikilvægt að íslensk stjórnvöld taki virkan þátt í samtali Evrópuríkja um öryggismál álfunnar, og leitist eftir fremsta megni við að vera hluti af hvers kyns samevrópsku varnarbandalagi ef til þess kemur.

Á þessum tímapunkti er útilokað að vita hversu djúp krísan í vestrænni samvinnu verður og hvort rofið verði varanlegt. Hins vegar er ljóst að hlutirnir verða aldrei aftur eins og áður var. Af þessum sökum er ekki ólíklegt að núverandi ríkisstjórn muni á komandi misserum standa frammi fyrir stórum ákvörðunum í utanríkismálum sem marka stöðu Íslands í alþjóðakerfinu fyrir komandi kynslóðir.

Það er að mínu viti algjörlega ljóst að hagsmunum landsins er best borgið í sem nánustu samfloti með frændþjóðum okkar á Norðurlöndum og öðrum ríkjum Evrópu. Þetta eru þær þjóðir sem standa okkur næst að viðmiðum, gildum, og menningu. Þetta eru okkar langmikilvægustu viðskiptaaðilar. Og þetta eru þær þjóðir sem helst standa vörð um lög og reglu í alþjóðasamskiptum sem er einmitt það sem gerir smáríkjum eins og Íslandi kleift að vaxa og dafna. Loks er ljóst að sameinað bandalag Evrópuríkja er það afl sem helst getur varið fullveldi og hagsmuni þjóðarinnar gegn hvers kyns ofríki og kúgunum stórvelda. Það er ákaflega sorglegt að Bandaríkin séu nú í hópi þeirra ríkja sem við gætum þurft að óttast hvað slíkt varðar. Það er engu að síður sá raunveruleiki sem við stöndum frammi fyrir.

Höfundur er doktor í alþjóðastjórnmálum.




Skoðun

Skoðun

Jón Gnarr skrifar

Sjá meira


×