Innlent

Um­talað kynferðisbrotamál fer á efsta dóm­stigi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hæstiréttur tekur málið fyrir.
Hæstiréttur tekur málið fyrir. Vísir/Vilhelm

Hæstiréttur hefur fallist á áfrýjunarbeiðni karlmanns sem var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi í Landsrétti fyrir að brjóta kynferðislega á samstarfskonu eiginkonu sinnar. Karlmaðurinn hafði áður verið sýknaður í héraðsdómi.

Málið varðar atburði sem áttu sér stað á árshátíð fyrirtækis í Reykjavík árið 2022, nánar tiltekið á salerni. Finni Inga Einarssyni Finni Inga var gefið að sök að stinga typpi sínu í munn konunnar, og notfært sér að hún gæti ekki spornað við verknaðinum vegna ölvunar.

Konan sagði að um kvöldið hafi hún verið að dansa, verið töluvert ölvuð og farið á salernið. Hún hafi setið á bás þegar eiginmaður samstarfskonu hennar kom. Sá hafi dregið fram typpið og stungið því upp í munninn á henni. Hún hefði spurt hvað hann væri að gera, nefnt samstarfkonuna og spurt hvort hann væri ekki eiginmaður hennar.

Þar á eftir hafi hún kúgast og svo kastað upp. Ælan hafi farið á sokkabuxur og skó sem hún var í. Síðan hafi hún reynt að þrífa upp æluna, ráfað fram á gang, hitt konu og svo hringt í lögreglu. Maðurinn var handtekinn seinna um nóttina.

DNA úr konunni fannst á typpi mannsins, sáðfrumur í munni hennar en engar í nærbuxum mannsins. Héraðsdómi þótti of mikill vafi þótti á því hvort Finnur hefði verið að verki og sýknaði hann. Landsréttur sá málið öðrum augum, sagði framburð hans ótrúverðugan og sakfelldi.

Hæstiréttur féllst á að taka málið fyrir með vísun til þess að rétturinn eigi að taka mál fólks sem er sýknað í héraði og sakfellt í Landsrétti fyrir nema augljóst þyki að áfrýjun breyti ekki dómi Landsréttar. Málið kemur því til kasta hæsta dómstigs landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×