Innlent

Hand­tekinn grunaður um vasa­þjófnað í mið­borginni

Eiður Þór Árnason skrifar
Ýmis mál komu inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær og nótt. 
Ýmis mál komu inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær og nótt.  Vísir/Vilhelm

Lögreglan aðhafðist í miðborginni eftir að tilkynnt var um þrjá einstaklinga sem grunaðir voru um vasaþjófnað. Fannst einn þeirra þegar lögregla kom á vettvang og reyndist vera með nokkuð magn af ætluðu þýfi og fjármunum. Hinn grunaði var handtekinn og vistaður í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins.

Greint er frá þessu í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en þrír gistu fangageymslur í morgunsárið og voru alls 52 mál skráð frá klukkan 17 í gær til 5 í morgun.  

Lögregla hafði einnig afskipti af einstaklingi sem tók á rás þegar hann sá laganna verði við almennt eftirlit. Eftir stutta en snarpa eftirför á fæti náðist einstaklingurinn og reyndist hann vera með nokkuð magn af fíkniefnum innanklæða, að sögn lögreglu. Sá var handtekinn og vistaður í fangageymslu grunaður um sölu og dreifingu fíkniefna og ólöglega dvöl á landinu.

Kærðir vegna filmu í rúðu

Lögregla var sömuleiðis kölluð til vegna einstaklings sem er sagður hafa verið með ógnandi tilburði í miðborginni, haft sig mikið í frammi og kastað glasi í rúðu á skemmtistað. Sá var handtekinn og vistaður í fangaklefa þar til af honum rennur.

Tveir ökumenn voru kærðir fyrir brot á reglugerð um gerð og búnað ökutækja en búið var að setja dökkar filmur í fremri hliðarrúður bifreiðanna. Ökutækin voru einnig boðuð í skoðun að kröfu lögreglu.

Þá handtók lögregla ökumenn sem grunaðir voru um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna, og hafði afskipti af ökumönnum án gildra ökuréttinda. Þrír ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur en sá hraðasti mældist á 121 km/klst þar sem hámarkshraði er 80 km/klst, að sögn lögreglu.


Tengdar fréttir

Laumaði sér í vasa ferðamanns og hirti af honum kortin

Gerð var tilraun til að nota stolin greiðslukort í verslun í miðbæ Reykjavíkur síðdegis í gær. Þeim hafði fyrr um daginn verið stolið af ferðamanni sem beið eftir því að Strokkur sýndi listir sínar í Haukadal. Myndband náðist af stuldinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×