Upp­gjörið: Aftur­elding - Víkingur 1-0 | Fyrsti sigur Mos­fellinga kominn í hús

Hinrik Wöhler skrifar
Mosfellingar héldu hreinu annan leikinn í röð og tókst að skora sigurmark í þetta sinn.
Mosfellingar héldu hreinu annan leikinn í röð og tókst að skora sigurmark í þetta sinn. Vísir/Diego

Afturelding vann óvæntan sigur á Víkingum, 1-0, í þriðju umferð Bestu-deildar karla í Mosfellsbæ í kvöld. Hrannar Snær Magnússon skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu á 68. mínútu.

Víkingar voru sterkari aðilinn í upphafi leiks og Gylfi Þór Sigurðsson fékk frábært færi á 18. mínútu þegar hann komst inn í slaka sendingu Axels Óskars Andréssonar. Markvörður Mosfellinga, Jökull Andrésson, var fljótur að átta sig og varði skot Gylfa eftir að hann komst einn inn fyrir.

Um miðbik fyrri hálfleiks náðu Mosfellingar ágætis kafla og pressuðu að marki Víkinga. Georg Bjarnason var ekki langt frá því að opna markareikning Aftureldingar í efstu deild en Ingvar Jónsson varði meistaralega í marki Víkinga.

Gestirnir skoruðu mark sem var dæmt af þegar rúmlega hálftími var liðinn af leiknum. Viktor Örlygur Andrason náði lúmskri hælspyrnu sem endaði í markinu en var réttilega dæmdur rangstæður.

Það var markalaust í hálfleik í Mosfellsbæ en nýliðarnir voru alls ekki síðri í fyrri hálfleik en náðu ekki að koma knettinum fram hjá Ingvari Jónssyni í marki Víkinga. Gestirnir byrjuðu seinni hálfleikinn betur en varnarmenn Aftureldingar sáu við öllum aðgerðum Víkinga.

Seinni hálfleikur var fremur rólegur framan af en það breyttist á 68. mínútu þegar Hrannar Snær Magnússon átti góðan sprett inn í vítateig Víkinga og féll við eftir að Oliver Ekroth ýtti við honum.

Vítaspyrna var dæmd og var það Hrannar Snær sem steig sjálfur á vítapunktinn. Honum brást ekki bogalistin og sendi Ingvar Jónsson í rangt horn.

Gestirnir héldu uppi mikilli pressu það sem eftir lifði leiksins en náðu ekki að finna glufur á þéttri vörn Mosfellinga. Oliver Ekroth fékk upplagt tækifæri undir lok leiks þegar hann fékk boltann rétt utan við markteiginn en skóflaði boltanum yfir.

Það braust út mikill fögnuður í leikslok þegar Gunnar Oddur Hafliðason flautaði til leiksloka og sögulegur sigur Aftureldingar staðreynd.

Atvik leiksins

Eftir að hafa leikið 248 mínútur í efstu deild án þess að skora náðu Mosfellingar loks að brjóta ísinn úr vítaspyrnu. Hrannar Snær Magnússon skoraði eina mark leiksins við mikinn fögnuð Mosfellinga og tryggði heimönnum stigin þrjú.

Stjörnur og skúrkar

Hrannar Snær Georgsson var hetja Mosfellinga eftir að hafa fiskað víti og skorað úr því sjálfur á 68. mínútu.

Oliver Sigurjónsson og Bjartur Bjarmi Barkarson voru þéttir fyrir á miðjunni og áttu góðan leik í kvöld líkt og öll varnarlína Mosfellinga. Jökull Andrésson stóð sig vel í marki Aftureldingar og bjargaði liðinu í fyrri hálfleik með góðri markvörslu gegn Gylfa Þór Sigurðssyni sem slapp einn í gegn.

Oliver Ekroth stjakaði við Hrannari Snæ í vítateignum og varð það dýrkeypt fyrir sænska miðvörðinn og Víkinga.

Sóknarlína Víkinga náði aldrei að finna taktinn í Mosfellsbæ í kvöld og vantaði oftar en ekki upp á síðustu sendinguna eða snertinguna til að koma boltanum í netið.

Dómarar

Gunnar Oddur Hafliðason dæmdi leikinn í kvöld. Mosfellingar kölluðu eftir vítaspyrnu eftir að Elmar Kári Cogic féll við í teignum en Gunnar Oddur gekk ekki eftir því. Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, var allt annað en sáttur með dómara leiksins í hálfleik.

Mosfellingar fengu hins vegar ósk sína uppfyllta þegar Gunnar Oddur benti á punktinn í seinni hálfleik. Snertingin hjá Oliver Ekroth var ekki mikil en nægileg þó til að réttlæta vítaspyrnu og var það sanngjarn dómur.

Stemning og umgjörð

Stuðningsmenn beggja liða fjölmenntu í Mosfellsbæ í kvöld og var mun betri mæting en í fyrsta heimaleik Aftureldingar. Mosfellingar tjölduðu öllu til og voru með veglega upphitun í Hléðgarði. Tæplega 1.000 manns létu sjá sig á Malbikstöðinni að Varmá og var góð stemning í Mosfellsbænum í kvöld.

Viðtöl

Sölvi Geir: Óboðlegt og þurfum að líta í eigin barm

Sölvi Geir Ottesen segir frammistöðu liðsins í leiknum óboðlega. Ville Vuorinen - UEFA/UEFA via Getty Images

Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkinga, sparaði ekki stóru orðin eftir tap Víkinga í Mosfellsbæ í kvöld og skiljanlega mjög ósáttur með tapið á móti nýliðunum.

„Ósáttur með hvernig leikurinn var, frammistaða okkar var ekki boðleg. Vorum mjög sloppy í öllum okkar aðgerðum í dag og ég óska bara Aftureldingu til hamingju með þennan sigur. Þeir börðust eins og ljón allan tímann og gáfu okkur virkilega erfiðan leik, en við áttum svo sannarlega að gera miklu betur“ sagði Sölvi Geir Ottesen fljótlega eftir tapið og var sjáanlega mjög ósáttur.

Þið mætið samt ekkert illa, eruð með yfirhöndina fyrstu tuttugu mínúturnar. Hvað breytist eftir það?

„Við fáum færin í byrjun leiks til þess að koma okkur yfir og við það eflist Afturelding, því lengra sem líður þá fá þeir meiri trú á þetta. Byrjunin var kannski ágæt en síðan fannst mér við bara ekki gera nógu vel, vorum of flýta okkur of mikið í sóknunum okkar.“

„Það fór langur tími, bróðurparturinn af seinni hluta fyrri hálfleiks, fór í innköst hjá þeim og það dró svolítið tempóið úr leiknum. Við vildum halda tempóinu en mér fannst við gera það illa, vorum að klára sóknirnar okkar allt of fljótt og ekki að koma okkur í betri stöður,“ sagði Sölvi.

Mark Aftureldingar kom úr vítaspyrnu og segir Sölvi að slæm mistök hafi kostað Víkinga sigurinn í kvöld.

„Við hefðum átt að gera betur, mér finnst frammistaðan okkar í gegnum leikinn ekki boðleg. Markið sem við fáum á okkur eru bara barnaleg mistök af okkar hálfu. Látum teyma okkur út úr varnarlínunni en vorum búnir að fara yfir það að þeir eru með hraða kantara sem við þurfum að passa upp á en menn slökktu bara á sér.“

„Við þurfum að líta í eigin barm núna, við þurfum að vita hvað það er sem gerir okkur að góðum fótboltamönnum og góðu liði. Við erum ekki búnir að sýna það í síðustu tveimur leikjum. Það þurfa allir að kíkja aðeins inn á við og þar með talið við í þjálfarateyminu. Við þurfum líka að gera betur,“ sagði Sölvi eftir leikinn í Mosfellsbæ í kvöld.

Víkingar lentu undir um miðjan seinni hálfleik þegar Hrannar Snær Magnússon slapp skyndilega einn í gegn. Oliver Ekroth braut svo á honum og Hrannar skoraði úr vítinu. Sölvi talaði um barnaleg mistök og útskýrði það betur.

„Öll hægri hliðin okkar lætur teyma sig út og opnar svæðið bak við okkur, sem við eigum ekki að láta gerast.“

Hann var síðan ósáttur við hvernig liðið brást við því að lenda undir og vildi sjá sína menn gera mun betur í sókninni.

„Við hefðum átt að vera klókari þegar við erum lentir undir. Við förum of fljótt í að spila löngu boltunum upp í stað þess að finna betri stöður. Við hefðum getað verið miklu klókari.“

Leikur kvöldsins var tækifæri fyrir Víkinga til að rífa sig upp aftur eftir slaka frammistöðu og stórt tap í bikarleik gegn ÍBV í síðustu viku. Það tókst ekki en framundan er leikur gegn Val.

„Við ætluðum svo sannarlega að gera það en nú er bara back to the drawing board, finna leiðir út úr þessu. Þetta er enginn heimsendir en vissulega áhyggjuefni að við erum búnir að tapa síðustu tveimur leikjum, ekki eitthvað sem við Víkingar erum vanir að gera. Við þurfum bara að skoða þetta, reyna að bæta okkur og gera hlutina betur. Mæta tvíefldir inn í Valsleikinn. Svona er þetta, það bjátar á eins og hjá okkur núna, þannig að við þurfum bara að finna leið út úr þessu og ætlum að gera það“ sagði Sölvi að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira