Tíu kílómetrar í Kjálkafirði á sunnanverðum Vestfjörðum var lengsti kaflinn af þeim 45 kílómetrum sem slitlagið lengdist um í fyrra en það var minnsta viðbót í 35 ár. Í ár eru horfur á að það verði enn minna sem bætist við og að fara þurfi aftur til ársins 1977 til að finna dæmi um svo litla slitlagslengingu. Það ár bættust við 12 kílómetrar.

Verkefnin sem voru látin víkja í ár eru Reykjavegur í Biskupstungum, Bjarnarfjarðarháls á Ströndum norðan Steingrímsfjarðar, brúarsmíði á Jökulsá á Fjöllum við Grímsstaði, Dettifossvegur að vestanverðu milli Hljóðakletta og Dettifoss, og síðasti kaflinn í botni Berufjarðar. Það er reyndar verið að kanna hvort unnt sé að byrja á Bjarnarfjarðarhálsi, samkvæmt upplýsingum Péturs Matthíassonar hjá Vegagerðinni.
Stærstu nýju verkin sem fá framgang á þessu ári eru annarsvegar framlenging Arnarnesvegar í austurbyggðum Kópavogs og hins vegar jarðgöng og vegagerð til að tengja Húsavíkurhöfn við iðnaðarsvæðið á Bakka.
Þótt nýtt slitlag verði ekki mikið eru þetta þó kaflar sem munar um á hverjum stað, eins og fjórir kílómetrar á afleggjarann að Sólheimajökli, þrír kílómetrar á Landeyjaveg meðfram suðurbakka Þverár, á Búrfellsveg í Grímsnesi koma 2,4 kílómetrar og að bílastæði við Reykjanesvita einnig 2,4 kílómetrar. Í Hvítársíðu í Borgarfirði um Bjarnastaði koma þrír kílómetrar, fimm kílómetrar í átt að Örlygshöfn í sunnanverðum Patreksfirði, í Miðfirði í Húnaþingi frá hringvegi að Króksstöðum 3,8 kílómetrar, fremst í Eyjafirði á Hólaveg koma þrír kílómetrar, og svo einn kílómetri að bænum Dilksnesi í Hornafirði. Sum þessara verka klárast ekki fyrr en árið 2016.