Bréfið er dagsett 8. mars en samkvæmt reglum stofnunarinnar ber henni að svara erindum sem þessum innan hálfs mánaðar.
Í erindinu er rakið að rússneskur her hafi ráðist inn í Úkraínu 24. febrúar síðastliðinn. Næsta dag hafi verið tekin um það ákvörðun í stýrihópi Eurovision að meina Rússum þátttöku í samkomunni sem að þessu sinni verður haldin í Ítalíu. Stjórn Evrópusambands útvarpsstöðva hafi síðan samþykkt þessa ályktun.
Rússar út vegna hryllingsins í Úkraínu
„Felix Bergsson, sem situr í stýrihópi Eurovision, tilkynnti í Kastljósi RÚV þ. 25. febrúar að stýrihópurinn hefði tekið einróma ákvörðun um að Rússland fengi ekki verið með í ár.
Felix Bergsson sagði að „auðvitað reynum við alltaf að halda í þetta ópólitíska yfirbragð sem er á Eurovisionkeppninni og við reynum alltaf að leggja áherslu á að þetta sé ópólitískur viðburður. En núna var mönnum hreinlega nóg boðið“. Að sögn Felix Bergssonar komu yfirlýsingar frá sjónvarpsstöðvum, og þar á meðal RÚV um að vísa beri Rússlandi úr Eurovision. „Það er bara að mönnum er greinilega ofboðið. Þetta er allt út af þessum hryllingi sem við erum að upplifa í Úkraínu“ sagði Felix að lokum,“ segir í bréfinu.
Þá er bent á að 2019 hafi stjórn RÚV ákveðið að senda íslenska þátttakendur í Eurovision-samkomuna sem þá var haldin í Ísrael.
„Sama ár og keppnin skyldi haldin í Ísrael höfðu ísraelskir hermenn drepið 219 vopnlausa mótmælendur á Gazaströndinni og þar af 28 börn,“ er bent á í bréfinu. Jafnframt að vikurnar áður höfðu mörg þúsund manns undirritað áskorun þar sem hvatt var til sniðgöngu gagnvart Eurovision í Ísrael.
Grundvallast afstaða til mannréttindabrota á því hver fremur ódæðin?
En RÚV hafi tekið ákvörðun um þátttöku á þeim forsendum að ekki væri er um pólitískan viðburð að ræða heldur „þvert á móti samkomu ólíkra þjóða sem allt frá stofnun hefur haft að megintilgangi og leiðarljósi að breiða út boðskap sameiningar- og friðarkrafts sem felst í dægurtónlist og menningu almennt“ eins og sagði þá í tilkynningu RÚV.
Eins og þjóðin man fór hljómsveitin Hatari til Ísrael og náði að setja sitt mark á hátíðina með því að veifa Palestínuborða.
Í bréfi Hjálmtýs er þá farið yfir illvirki Ísraela sem hefur verið þátttakandi í Eurovision frá 1973M og hefur ekki dregið af sér við að ræna landi Palestínumanna, svipta þá mannréttindum og drepa þúsundir allt þetta tímabil: „Frá síðustu aldamótum hefur Ísraelsher drepið 2,198 palestínsk börn. Við vitum ekki hvað þessi her hefur drepið mörg börn frá 1973 - en sé miðað við meðaltal áranna 2000 - 2021 er heildin um 5,000 börn. Ekkert land hefur fengið jafn margar ávítur hjá SÞ og Ísrael fyrir brot á samþykktum samtakanna og brot á alþjóðasamþykktum.“
Í bréfinu er tíundað að „þrenn virt mannréttindasamtök (Amnesty International, Human Rights Watch og B'Tselem) hafa öll, eftir ítarlegar rannsóknir, lýst því yfir að í Ísrael ríki apartheid, þ.e. fólki er mismunað eftir uppruna og trú. Apartheid er ólögleg stefna skv. samþykktum SÞ - samtaka sem Ísland hefur verið þátttakandi í síðan 1946.“
Hvað hefur breyst?
Það er í ljósi þessa sem stjórn félagsins Ísland – Palestína telur að hljóti að vekja upp spurningar – hvað hafi breyst:
- Hver er munurinn á „hryllingnum í Úkraínu“ og framferði Ísraelshers í landi Palestínumanna að áliti stjórnenda RÚV?
- Getur stjórn RÚV upplýst hvers vegna RÚV styður þátttöku Ísraels í ljósi þess að það ríki hefur í áratugi stundað mannréttindabrot í trássi við samþykktir SÞ og fleiri alþjóðasamtaka, en á síðan frumkvæði, ásamt öðrum útvarpsstöðvum Evrópu, að brottrekstri Rússlands.
- Hvers vegna er stjórnendum RÚV „greinilega ofboðið“ núna? Fer afstaða stjórnenda RÚV eftir því hver framkvæmir mannréttindabrot?
- Mannréttindi eru réttindi allra - án undantekninga eins og skráð er í alþjóðasamþykktum.
- Má vænta þess að stjórn RÚV endurskoði afstöðu sína til veru Ísraels í Eurovision í ljósi þess að RÚV hefur tekið afstöðu gegn mannréttindabrotum Rússlands?
Bréfið birti Hjálmtýr nýverið á Facebook og ljóst af viðbrögðum að ýmsir bíða svara Stefáns útvarpsstjóra með nokkurri eftirvæntingu.