Blaðamenn Financial Times hafa komið höndum yfir drögin en í grein miðilsins (áskriftarvefur) segir að um mikla stigmögnun á fyrri kröfum Bandaríkjamanna sé að ræða.
Heimildarmenn miðilsins meðal ráðamanna í Úkraínu hafa meðal annars lýst drögunum sem ósanngjörnum og tilraun til ráns. Þeir segja að samkomulag sem byggi á þessum drögum myndi grafa undan fullveldi Úkraínu og gera ríkið háð Bandaríkjunum.
Samkvæmt nýju kröfunum myndu allar tekjur Úkraínu af námu-, olíu og gasvinnslu og allar tekjur af innviðum eins og höfnum, olíu- og gasleiðslum og lestum að fara í sjóð sem stýrt yrði frá Bandaríkjunum og hann yrði notaður til að deila tekjunum með ríkjunum tveimur.
Tekjunum yrði breytt í erlenda mynt og fluttar úr landi. Tefjist það að flytja tekjurnar í sjóðinn gætu Úkraínumenn, samkvæmt drögunum, þurft að greiða Bandaríkjamönnum skaðabætur.
Bandaríkin myndu fá greitt úr sjóðnum á undan Úkraínu og myndi sjóðurinn þar að auki hafa yfirstjórn á innviðaverkefnum, fjárfestingum og auðlindasölu.
Sjóðinum yrði stýrt af fimm manna nefnd og myndu Bandaríkjamenn skipa þrjá þeirra og því hafa neitunarvald yfir öllum ákvörðunum.
Í drögunum er einnig klausa um það að bandarískir embættismenn ættu að fá aðgang að öllum opinberum gögnum í Úkraínu og sömuleiðis aðgang að fjármálagögnum einkarekinna fyrirtækja þar í landi.
Sagði Trump-liða sífellt breyta kröfum sínum
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, er staddur í Frakklandi en þangað fór hann á fund fjöldal þjóðarleiðtoga og erindreka. Hann ræddi við blaðamenn í dag og sagði Bandaríkjamenn sífellt vera að breyta kröfum þeirra í garð Úkraínu. Hann tók þó fram að hann vildi ekki að hann væri talinn mótfallin því að semja við Bandaríkjamenn.
Þá sagði Selenskí að hann væri ekki á leið aftur til Washington DC.
Frá því Donald Trump tók við embætti forseta Bandaríkjanna, hefur hann lagt mikla áherslu á að Úkraínumenn greiði Bandaríkjunum á einhvern hátt fyrir þá hernaðaraðstoð sem ríkið hefur fengið.
Sjá einnig: Neitaði að skrifa undir plagg Trumps um sjaldgæfa málma
Trump hefur einnig ítrekað talað máli Rússa og Vladimírs Pútin, forseta Rússlands, og hafa Bandaríkjamenn heilt yfir beitt Úkraínumenn miklum þrýstingi.
Á sama tíma hafa Trump og erindrekar hans talað fyrir því að fella niður refsiaðgerðir og viðskiptaþvinganir gegn Rússum, í skiptum fyrir lítið sem ekki neitt.
Sjá einnig: Segjast ræða um að opna aftur Nord Stream-gasleiðslurnar
Selenskí fór í byrjun mars til Bandaríkjanna með því markmiði að skrifa undir samkomulag við Trump um afnot Bandaríkjamanna af auðlindum í Úkraínu. Sá fundur endaði með hávaðarifrildi og fór Selenskí frá Bandaríkjunum án þess að skrifa undir.
Evrópa segir nei
Síðan þá hafði samband ríkjanna skánað töluvert og höfðu Úkraínumenn til að mynda samþykkt tillögu Trump að almennu vopnahléi yfir þrjátíu daga. Pútín hafnaði því að endingu en gerði svo seinna meir samkomulag við Bandaríkjamenn um vopnahlé á Svartahafi, í skiptum fyrir niðurfellingu refsiaðgerða og aðgang að mörkuðum heimsins fyrir landbúnaðarvörur.
Rússar krefjast þess einnig að fá aftur aðgang að SWIFT-greiðslukerfinu, sem notað er til að miðla greiðslum milli alþjóðlegra banka. Flestum rússneskum bönkum var meinaður aðgangur að kerfinu eftir innrásina í febrúar 2022.
Sjá einnig: Vilja aðstoð við útflutning og losna við þvinganir áður en þeir hætta árásum
Þetta takmarkaða vopnahlé á Svartahafi snýr einnig að árásum á orkuinnviði í Úkraínu og í Rússlandi og virðist sem það hafi haldið síðustu daga.
Á fundinum í Frakklandi í dag ákváðu leiðtogar um þrjátíu ríkja að fella ekki niður refsiaðgerðir gegn Rússum, fyrr en rússneskir hermenn hörfuðu frá Úkraínu. Hvaða áhrif það mun hafa á vopnahléið er ekki ljóst.
Ætla að styrkja her Úkraínu
Eftir fundinn í París í dag hétu leiðtogarnir sem sóttu hann því að styrkja her Úkraínu en Keir Stamer, forsætisráðherra Bretlands, og Emmanuel Macron, forseti Frakklands, reyndu að ýta undir stuðning fyrir því að senda hermenn til Úkraínu, þegar búið er að skrifa undir friðarsamkomulag, þar sem þeir yrði ætlað að tryggja friðinn.
Eins og fram kemur í grein Reuters hefur það gengið erfiðlega og er það að miklu leyti vegna þess að vopnahlé þykir fjarlægur draumur. Framtíðin byggir að stórum hluta á ákvörðunum Rússa og að hvaða leyti Bandaríkjamenn eru tilbúnir til að styðja meinta bandamenn sína.
Macron tilkynnti í dag aukna hernaðaraðstoð handa Úkraínumönnum fyrir um tvo milljarða evra.
Aðgerðir og orðræða Trumps hefur leitt til mikilla áhyggja í Evrópu um að Bandaríkjamönnum sé ekki lengur treystandi til að koma ríkjum Evrópu til aðstoðar. Ráðamenn víðsvegar um Evrópu hafa á undanförnum vikum tilkynnt umfangsmikla hernaðaruppbyggingu en hún mun taka tíma og í millitíðinni munu Evrópumenn þurfa að reiða sig að miklu leyti á Bandaríkin.
Í Evrópu hefur sérstök áhersla verið lögð á að draga úr kaupum á vopnum og hergögnum frá Bandaríkjunum.