Skoðun

Þegar vald óttast þekkingu.

Halla Sigríður Ragnarsdóttir skrifar

Í umræðu síðustu daga um jafnréttisáætlanir og kynjafræðikennslu hefur komið glöggt í ljós að andóf gegn jafnréttisbaráttu byggir sjaldnast á skorti á upplýsingum. Þvert á móti byggir það alloft á meðvitaðri viðleitni til að gera lítið úr þeirri þekkingu sem afhjúpar róttæk kerfi misréttis og forréttinda. Þekkingin er nefnilega óþægileg fyrir þá sem hafa hagnast á blindum blettum samfélagsins. Það er engin tilviljun að þegar jafnréttismál eru tekin til umræðu, þegar við greinum valdatengsl í launum, fjárstyrkjum, fjölmiðlum eða í daglegu lífi, þá bregðast sumir við með vanvirðingu eða háði. Það eru ákveðin varnarviðbrögð gegn því sem er óumflýjanlegt: að sá veruleiki sem þeir hafa upplifað sem eðlilegan er í raun byggður á djúpstæðu ójafnvægi valds og forréttinda. Við vitum að samfélagslegt misrétti er ekki tilviljanakennt. Það er kerfisbundið, innbyggt í stofnanir og menningu okkar. Við vitum líka að það réttlætir sig oft með þögninni sem ríkir í kringum þessi málefni. Þess vegna skiptir fræðsla svo miklu máli. Hún rýfur þögnina. Hún gerir hið ósýnilega sýnilegt.

Þekking er vald. Það er einmitt þess vegna sem fræðsla um jafnrétti er svo öflug. Hún færir okkur ekki bara skilning á staðreyndum heldur líka tækin til að breyta samfélaginu í raun. Það er líka ástæða þess að sumt fólk óttast þessa fræðslu, hún afhjúpar þau kerfi sem þau hafa hagnast á, jafnvel án þess að gera sér fulla grein fyrir því. Við eigum ekki að sætta okkur við að jafnréttisbarátta sé kölluð „innræting“. Slík orðræða er til marks um vanmátt þeirra sem sjá valdastöðu sína ógnaða. Það er gömul og gegnsæ vísbending um að þeir sem hafa setið við völd vilja ekki að aðrir fái tólin til að spyrja gildra spurninga. Ég skrifa þetta ekki til að réttlæta að við fræðum okkur um jafnrétti. Ég skrifa þetta til að minna á að við höfum ekki val lengur. Það er skylda okkar að skilja hvernig samfélag okkar virkar, og skylda okkar að gera betur. Það er okkar ábyrgð að beita þekkingunni í þágu réttlætis og frelsis allra. Þekking er vald, og við ætlum að beita því af ábyrgð, af festu, og með það að markmiði að byggja samfélag sem þjónar öllum, ekki aðeins fáum.

Höfundur er nemi í kynjafræði




Skoðun

Sjá meira


×