„Fyrir þremur og hálfri viku síðan þá fann ég lítinn hnúð í brjóstinu mínu. Kannski var hann jafnstór og baun. Ég hugsaði strax um að láta athuga þetta,“ sagði Camilla Herrem á samfélagsmiðlum sínum.
Herrem fór í brjóstamyndatöku, ómskoðun og það var tekið vefjasýni úr hnúðnum. Þá kom í ljós að hún væri með krabbamein í brjóstinu.
Hún fékk símtal frá sjúkrahúsinu og var beðin að koma þangað þar sem hún fékk slæmu tíðindin.
Herrem er 38 ára gömul og hefur lengi verið í hópi bestu vinstri hornamanna heims.
Hún hefur spilað með Sola í heimalandinu frá árinu 2017 en var þar áður atvinnumaður á meginlandi Evrópu.
Herrem var í Evrópumeistaraliði Norðmanna í desember síðastliðnum en tilkynnti eftir mótið að landsliðsskórnir væru komnir upp á hillu.
Herrem vann alls sautján verðlaun með norska landsliðinu á stórmótum þar af ellefu gullverðlaun. Hún vann tvisvar Ólympíugull, þrjá heimsmeistaratitla og sex Evrópumeistaratitla.
Herrem skoraði alls 951 mark í 332 leikjum með norska landsliðinu.
Hér fyrir neðan má hlusta á Herrem segja frá þessu en auðvitað á norsku.