Þann sjöunda október ruddust vígamenn Hamas og aðrir inn í suðurhluta Ísrael, þar sem þeir eru sagðir hafa banað um 1.200 manns og tekið um 250 manns í gíslingu.
Í yfirlýsingu sem birt var á vef stofnunarinnar í dag segir Lazzarini að málið sé til rannsóknar og að hverjum starfsmanni UNRWA sem komið hafi að árásunum verði refsað samkvæmt lögum.
Hann segir stofnunina fordæma umræddar árásir Hamas og kallar eftir því að Hamas-liðar sleppi þeim gíslum sem enn eru í haldi samtakanna.
Sameinuðu þjóðirnar stofnuðu UNRWA árið 1949 til að aðstoða palestínska flóttamenn. Samtökin starfa víðsvegar fyrir botni Miðjarðarhafsins.
„Þessar sláandi ásakanir líta dagsins ljós á sama tíma og rúmlega tvær milljónir manna á Gasaströndinni treysta á lífsnauðsynlega aðstoð sem samtökin hafa verið að veita frá því átökin hófust. Hver sem svíkur grunngildi Sameinuðu þjóðanna svíkur einnig þá sem við þjónum á Gasa, annars staðar á svæðinu og víðs vegar um heiminn,“ segir Lazzarini í yfirlýsingunni.
Talsmaður utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna tilkynnti á svipuðum tíma og Lazzarini birti yfirlýsingu sína að Bandaríkin myndu ekki gefa UNRWA frekara fé í bili. Á meðan verið væri að rannsaka þær ásakanir að tólf starfsmenn stofnunarinnar hefðu tekið þátt í árásum Hamas-samtakanna og annarra.
Bandaríkin voru árið 2022 lang stærsti bakhjarl UNRWA og veittu stofnuninni um 222 milljónir dala. Næst á eftir var Evrópusambandið með rúmar hundrað milljónir dala.
Í yfirlýsingu ráðuneytisins segir að Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hafi rætt við Antonio Guterres, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, í gær og hann hafi sagt mikilvægt að komast til botns í málinu sem fyrst. Þá segir í yfirlýsingunni að Guterres hafi heitið því að rannsaka málið og heitið skjótum viðbrögðum reynist ásakanirnar réttar.