Miðvörðurinn Harry Maguire átti vægast sagt slæman leik er enska landsliðið tapaði 0-1 fyrir Dönum á Wembley er liðin mættust í Þjóðadeildinni í fyrradag.
Maguire fékk gult spjald eftir aðeins fimm mínútna leik. Þegar rétt rúmur hálftími var liðinn fór hann í glórulausa tæklingu á miðjum velli og fékk í kjölfarið sitt annað gula spjald og þar með rautt.
Kórónaði þetta í raun slæma byrjun Maguire á tímabilinu. Þó svo hann hafi átt ágætan leik er England lagði Belgíu á Wembley þann 11. október þá hefur miðvörðurinn ekki átt sjö dagana sæla með félagsliði sínu Manchester United það sem af er tímabili.
Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins, stendur með sínum manni en fjölmiðlar ytra eru flestir á því að Maguire sé ekki andlega klár í komandi tímabil. Það gæti farið svo - til þess að fá sem mest út úr leikmanninum á komandi mánuðum - að Ole Gunnar Solskjær, þjálfari Manchester United, þurfi að gefa Maguire frí frá æfingum og leikjum svo hann nái fyrri getu að nýju.
Harry Maguire's performance genuinely one of the worst I've seen in an England shirt. Scarily bad. Excellent for Leicester, adequate for Man Utd last season, beyond awful so far this season. Looks totally frazzled by whatever happened in Mikonos. Needs a break.
— Oliver Kay (@OliverKay) October 14, 2020
Maguire, sem er fyrirliði bæði Englands og Man Utd, hefur staðið vörnina í ensku úrvalsdeildinni þar sem Man Utd hefur fengið á sig 11 mörk í aðeins þremur leikjum til þessa. Í þó nokkrum markanna hefur Maguire litið skelfilega út.
Það vorkennir eflaust enginn Maguire fyrir það að vera fyrirliði eins stærsta knattspyrnuliðs í heimi og byrjunarliðsmaður í enska landsliðinu. Það er hins vegar ljóst að frí – ef frí skyldi kalla – fyrirliðans og fjölskyldu hans í Grikklandi hefur tekið sinn toll andlega. Var Maguire handtekinn eftir að hafa farið út að skemmta sér með vinum og ættingum.
Þar lenti Maguire upp á kant við óeinkennisklædda lögreglumenn á bar eftir að systur hans var byrlað ólyfjan. Í kjölfarið endaði Maguire á lögreglustöð þar sem grískir lögreglumenn eiga að hafa gengið í skrokk á honum og hótað að enda feril hans.
Maguire hefur viðurkennd að hann óttaðist um líf sitt á þessum tímapunkti. Þetta er ekki lífsreynsla sem einhver gleymir svo glatt. Hann hefur alltaf haldið fram sakleysi sínu í málinu.
Thanks for everyone s support over the last week, I m pleased to have had my say and share the true version of events. Looking forward to getting on with life now and the season ahead with @ManUtd and @England. pic.twitter.com/99G1iVi0qh
— Harry Maguire (@HarryMaguire93) August 28, 2020
Þessi skelfilega lífsreynsla ásamt því að hafa spilað 55 leiki fyrir Man United á síðustu leiktíð ásamt tíu leikjum fyrir enska landsliðið er líklega ástæða þess að Maguire er alveg tómur þessa dagana, bæði andlega og líkamlega.
Maguire leið fyrir það að Ole Gunnar Solskjær, þjálfari Man Utd, treystir ekki öllum varnarmönnum sínum og því spilaði Maguire töluvert fleiri leiki en ella. Spilaði hann alla 38 leiki liðsins í ensku úrvalsdeildinni frá upphafi til enda á síðustu leiktíð.
Tímabilið 2018/2019 lék Maguire með Leicester City og var frammistaða hans það góð að Man Utd festi kaup á honum fyrir 80 milljónir punda sumarið 2019. Þá lék hann aðeins 32 leiki í öllum keppnum. Tímabilið þar áður lék hann 44 leiki og fór í kjölfarið beint á HM.
Maguire hefur vissulega áður leikið meira en 50 leiki á einu og sama tímabilinu. Þá lék hann með Sheffield United í ensku C-deildinni og var rétt yfir tvítugt. Hinn 27 ára gamli Maguire hefur hins vegar aldrei kynnst öðru eins álagi og því sem kemur með fyrirliðabandi Manchester United.

Síðasta tímabil ásamt ferðinni til Grikklands situr að því virðist enn í Maguire og það er ljóst að hann leikmaðurinn þarf nauðsynlega á fríi að halda.
Það er einfaldlega spurning hvort Man Utd megi við því en liðið á leik í ensku úrvalsdeildinni nú um helgina og mætir svo Paris Saint-Germain þann 20. október í Meistaradeild Evrópu. Verður sá leikur sýndur beint á Stöð 2 Sport.